Óreglulegur hjartsláttur og gáttaflökt?

Spurning:

Hefur eitthvað nýtt komið fram fyrir þá sem eru
með óreglulegan hjartslátt og gáttaflökt?

Svar:

Það eru um 3.500 manns á Íslandi með þessa
takttruflun, sem oft er mjög bagaleg. Það er nú verið að gera
fjölþjóða rannsókn á nýju blóðþynningarlyfi og verið að bera
það saman við gamla lyfið. Þetta nýja hefur þann kost að það
veldur líklega sjaldnar blæðingum og það þarf aldrei að
mæla storkuna. Ljóst er nú að það eru einskonar „elliglöp“ á
mótum lungnabláæðanna og vinstri gáttar hjartans sem
líklega á oft sök á því að þessir sjúklingar eru með vitlausan
takt. Líklegt er að innan skamms verði hægt að brenna þessa
takttruflun í burtu, en hún er óskaplega hvimleið, veldur
miklum óþægindum og hugsanlega hættulegum blæðingum
hjá þeim sem þurfa að taka blóðþynningarlyf. En það er samt
betri kostur en að fá heilaáfall sem því miður getur komið í
kjölfar þessara takttruflana.

Árni Kristinsson, hjartalæknir