Óvenjuleg hegðun barna minna – hvað er til ráða?

Spurning:

Sæl Guðríður Adda, og þakka þér fyrir greinargott svar. Það er skemmst frá því að segja að ég er í raun að reyna að átta mig (þ.e. sem það foreldri sem sjaldnar er heima) á því hvernig getur staðið á ákveðinni hegðun tveggja af börnum okkar – og er afar þakklátur fyrir hverja þá atferlisgreiningu sem getur hjálpað okkur.

Við eigum eina 6 ára dóttur og tvær 2 ára (tvíbura, tvíeggja). Sú elsta er í skóla og yngri stelpurnar tvær eru heima með móður sinni, þ.e. ekki farnar á leikskóla. Það sem plagar mig með tvíburana, er að þegar ég er ekki heima, þ.e. þegar kona mín er ein með þær, þá má hún ekki víkja frá þeim. Þær mega einfaldlega ekki af henni sjá, þær fylgja henni hvert einasta fótmál, á salernið, í eldhúsið, í þvottahúsið og það sem meira er, þær vilja einna helst að hún haldi á þeim hverja stund. Þegar elsta stelpan kemur heim úr skóla, þarfnast hún nokkurrar athygli frá móður sinni, sem er sjálfsagt og eðlilegt, en ég skynja að erfitt getur verið fyrir hana að veita henni hana þar sem „litlurnar" mega ekki af henni sjá og verða helst að vera á sitt hvorum handleggnum á henni.

Þegar ég kem heim úr vinnu – eða er einn með þær, haga þær sér ekki svona. Þær dunda sér við eitt og annað hjá mér sem þær gera aldrei hjá móður sinni. Þegar einhver er hjá móður þeirra, amma og afi t.d., er allt í lagi þó að móðir þeirra bregði sér úr augsýn, stund og stund, þó virðast þær verða að vita af henni. Ef ég er einn með þær, ef konan mín bregður sér af bæ (sem hún gerir reyndar sjaldan) virðast þær ekki hafa neinar áhyggjur af því að móðir þeirra skuli ekki vera heima. Það er helst þegar þær eru orðnar þreyttar að þær fara að kalla eftir henni, en ekki þannig að vandræði verði.

Þetta hefur verið svona frá fæðingu, liggur mér við að segja. Þær eru allar saman alveg yndislegar stelpur og Guð hefur vissulega launað okkur ríkulega með þeim. Ég hef hins vegar talsverðar áhyggjur af konu minni, því þótt hún kvarti ekki yfir þessu í mín eyru, verð ég þess áskynja að hún tekur þetta töluvert inn á sig – enda getur hún ekki farið á salernið án þess að þær fylgi og þetta er gífurlegt álag fyrir hana.

Ef þú sérð fram á að geta svarað þessu é einhvern hátt, verð ég þakklátur.

Kveðja.

Svar:

Komdu sæll og þakka þér fyrirspurnina.

Eins og þegar hefur komið fram í svari mínu við fyrri fyrirspurn þinni vegna þessa máls, þá er það nokkuð snúið að verða við þeirri greiningu sem þú biður um. Í því sambandi vil ég benda á að það er frekar ólíklegt að hægt sé að svara því „hvernig staðið getur á hegðun tveggja barna ykkar”. Getgátur mínar um það eru í sjálfu sér engu betri en þínar. En grípum aðeins niður í það svar sem þú fékkst:

„… ef þú ert að leita eftir formlegri greiningu á „sálrænu ástandi” barnanna, þá ráðlegg ég þér að leita til einhvers þeirra fjölmörgu starfandi sálfræðinga sem t.d. má finna í símaskránni. Auk tiltekinna verkfæra, svokallaðra sálfræðilegra prófa, sem notuð eru til slíkra greininga, hafa margir þeirra langa reynslu í starfi sínu.

En ef þú ert hins vegar að leita eftir ákveðinni reglu sem verður á hegðun barnanna eftir aðstæðum, þá er í atferlisfræðinni að finna mikla þekkingu á hegðun og samspili hennar við ýmsa umhverfisþætti, sem fengist hafa í tímanna rás með rannsóknum og reynsluprófunum.

Það er í atferlisvísindunum eins og öðrum vísindagreinum, að svo hægt sé að greina að einhverju gagni mynstur í þeim breytingum sem verða á hegðun, þá þarf að afla mjög nákvæmra upplýsinga um hegðunina sem verið er að skoða og þá þætti sem geta verið mögulegir áhrifavaldar við að breyta henni; s.s. hverjir þeir eru, hvernig og hvenær þeir tengjast hegðuninni og hver styrkur þeirra er. Til að afla slíkra upplýsinga þarf að mæla þessa þætti þegar þeir gerast -almenn frásögn nægir ekki. Atburðir reynast oft vera með öðrum hætti en okkur finnst þeir vera svona í fljótu bragði. Greiningu af þessu tagi verður ekki við komið með almennum lýsingum eins og þeim sem gefnar eru með tölvusamskiptum …”

Ef við höldum aðeins áfram með þetta, þá á hegðun sér yfirleitt einhverja sögu. Sagan getur verið mislöng. Þær athafnir sem við sjáum og erum að glíma við hafa þá þróast smám saman og valist úr öðrum mögulegum athöfnum, að öllum líkindum með því að þær höfðu einhverjar þær afleiðingar, t.d. viðbrögð hinna fullorðnu í dæminu þínu, sem héldu þeim gangandi. Lítum aðeins á einfaldað, afmarkað dæmi:

Aðdragandi/aðstæður: Faðir lítið heima. Móðir alltaf hjá barninu.
Hegðun: Barn gefur merki um að það vilji láta taka sig með því að rétta upp báðar hendur.
Afleiðingar: Móðir tekur það örugglega upp strax (kannski til að komast hjá gráti) í hvert skipti sem það
gefur merki þar um.

Sú saga sem skrifast í þessu dæmi verður væntanlega sú að barnið biður móður um það oftar og oftar að verða tekið upp. Tæknilega orðað, þá eykst tíðni hegðunarinnar það er kallað að hún styrkist. Ef hegðunin sem við viljum gjarnan breyta á sér langa sögu af þessu tagi, ekki aðeins í tíma heldur í öllum þeim fjölda skipta sem hún tengdist afleiðingunum (greiðslunni) sem héldu henni gangandi, er líklegt að sambandið milli hegðunarinnar og afleiðinganna verði mjög sterkt og ekki rofið í einni svipan. Greiðslufyrirkomulagið, ef við styðjumst við slíka líkingu, skiptir einnig verulegu máli.

Nú er svo sem ekki ósennilegt að í byrjun sýni barnið í dæminu okkar einnig sömu hegðun gagnvart öðrum fullorðnum, s.s. föður. Ef hann er hins vegar mjög sjaldan á vettvangi, eða bregst ekki við merkinu frá barninu með sama hætti, þ.e. jákvætt, strax og örugglega, þá er frekar líklegt að hegðun barnsins fjari út, sjáist sjaldnar og hverfi jafnvel alveg í þessu samhengi. Hins vegar getur vel verið að barnið fái mikla og umsvifalausa athygli þessa sama föður þegar það er að dunda sér eða sýsla eitthvað. Og þegar fleiri eru til staðar, s.s. afar og ömmur, þá fær barn yfirleitt mjög mikla og stöðuga athygli frá þeim fyrir ýmislegt sem það hefur í frammi og er annað en að hanga í pilsum móður sinnar.

Nú er ekki ósennilegt að fleiri athafnir í fari barnsins sem lúta að umönnun þess geti styrkst á hliðstæðan hátt. Með öðrum orðum sagt, það fer mikill tími hjá móður í að sinna barninu beint sem þýðir jafnframt að lítill tími verður eftir til að gera eitthvað annað. Okkur finnst þetta sjálfsagt þegar börnin eru lítil, en viljum helst að úr því dragi með auknum aldri þeirra og þroska. Í byrjun er samspilið á þeim nótum sem manni finnast vera sjálfsagðar og eðlilegar, en ef við „kúplum ekki frá“ smám saman og reynum að tengja viðbrögð okkar öðrum og ósamrýmanlegum athöfnum í fari barnsins t.d. einhverju sem við teljum að stuðli að og auki sjálfstæði þess, þá magnast ferlið áfram þangað til það er farið að trufla daglegt líf. Dæmi: Það er frekar ólíklegt að stálpaður krakki gefi merki til móður sinnar um að láta taka sig með því að rétta báðar hendur upp. Hann getur hins vegar valdið henni verulegu álagi með því að fylgja henni eins og skugginn og jafnvel sitja fyrir framan salernisdyrnar og bíða hennar til að krefja hana um eitthvað sem hann vill að hún geri fyrir hann.

Hegðunin sem truflar okkur á seinni stigum getur hafa þróast með þeim hætti að þegar við höfum séð hana í gegnum tíðina hefur það jafnvel verið með smá afbrigðum í hvert skipti. Þegar við svo förum að huga að málinu getur jafnvel upphaflega athöfnin fyrir löngu verið horfin úr hegðunarmynstrinu, þótt hún sé enn vissulega möguleg. Hverju afbrigði hafa þá fylgt umsvifalausar afleiðingar sem að öllum líkindum hafa falið í sér athygli af einhverju tagi og haldið þróuninni gangandi.

Mér sýnist að svarið til þín felist í spurningunni hvað viljið þið gera í málinu?
Ef þið eruð sammála og konan þín vill líka draga úr því hvað litlu dætur ykkar sækja mikið í hana getið þið prófað að tengja með öðrum hætti en nú er, ef það er það sem þið viljið gera. Í meginatriðum þá dragið þið úr þeim afleiðingum sem hingað til hafa haldið við og styrkt þá hegðun stelpnanna sem þið viljið gjarnan sjá minna af.

En athugið að ef fólk fer allt í einu að hunsa einhverja hegðun sem það hefur áður styrkt með viðbrögðum sínum, hefur það þveröfug áhrif til að byrja með og kallar auk þess á vanlíðan allra sem að málinu koma og mikil vandræði, jafnvel verri en þau voru sem upphaflega átti að slökkva. Það er mjög mikilvægt að styrkja samhliða og samtíma einhverja aðra og ósamrýmanlega athöfn sem þið viljið gjarnan sjá meira af, með því að bregðast strax, jákvætt og örugglega við henni. Það getur jafnvel riðið baggamuninn í því að áætlunin gangi upp hjá ykkur. Ef þetta gengur vel þá fer aukinn tími í þá hegðun sem þið eruð að magna upp og sjálfkrafa verður minni tími eftir fyrir annað. (Þetta er kallað DRA sem er ensk skammstöfun fyrir Differential Reinforcement of Alternative behaviors).

Ef þið skoðið svör frá mér við öðrum fyrirspurnum á síðunni, þá er þar m.a. að finna leiðbeiningar um verk- og kennsluáætlun sem skrifuð er niður á blað til að auðvelda verkið. Prófið að styðjast við þær leiðbeiningar sem ramma og setja ykkar dæmi þar. Þá byrjið þið á því að greina stöðuna eins og hún er með því að hafa þrjá dálka á blaði. Í miðdálkinn skrifið þið hegðun stelpnanna sem þið viljið hafa áhrif á – hvað gera þær? Í fyrsta dálkinn skrifið þið við hvaða aðstæður þær haga sér með þessum hætti, og í þriðja og síðasta dálkinn skrifið þið hver umsvifalaus viðbrögð mömmu þeirra eru við því sem þær gera. Þegar þið lítið yfir blaðið þá sjáið þið væntanlega eitthvert ákveðið mynstur. Þið getið svo t.d. bætt við fjórða dálkinum og skrifað þar hvað hú
n eða þið ætlið að gera í staðinn. Framkvæmdina á því ættuð þið að hafa í smáum skrefum en þéttum, þannig að breytingin gangi nokkuð bratt eða hratt fyrir sig. Í því sambandi er gagnlegt að setja meginmarkmið og láta nokkur áfangamarkmið varða veginn. Þið þurfið að fylgjast mjög vel með hvernig þetta gengur hjá ykkur, og endurskoða áætlunina jafnóðum ef í ljós kemur að þið eruð ekki á réttri leið. Ef vinnan við þetta breytingaferli hvílir aðallega á konunni þinni, þá þarftu að hrósa henni mjög oft fyrir allar smábreytingar sem verða í rétta átt, og auðvelda henni verkið með því að koma vel á móti henni í því.

Gangi ykkur vel með þetta.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.