Óvenjulegir smellir frá barni í móðurkvið

Spurning:
Sæl.

Ég er með soldið skrítna fyrirspurn… en málið er að ég er komin 32 vikur á leið og heyri smelli í maganum á mér. Ég er búin að finna fyrir þessu í svona 3-4 vikur, og þetta gerist svona 2-3 á dag. Þetta er svona eins og þegar maður brakar í fingrunum, nema þetta kemur frá barninu. Gerist þegar það sparkar, þó svo að ég liggi alveg kyrr. Meira að segja aðrir í kringum mig hafa heyrt þetta, hvað getur þetta verið? Er þetta eitthvað hættulegt? Getur verið að barnið vanti einhver vítamín? Ég vona að þú getir svarað mér þar sem að ég fer ekki til ljósunnar fyrr en eftir 2 vikur og hef miklar áhyggjur af þessu…  Með fyrirfram þökk

Svar:
Þetta er svo sannarlega óvenjulegt en þó ekki með öllu óþekkt. Yfirleitt finnst engin skýring á þessu en þetta eru mögulega soghljóð frá barninu t.d. þegar það sýgur fingur. Í afar sjaldgæfum tilvikum gæti verið um að ræða beinbrot eða liðáverka/-galla.

Þú ættir að tala um þetta við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni þannig að hægt sé að skoða þetta betur t.d. með hlustun eða sónar. Og það er ekkert að því að biðja um aukaskoðun ef maður er eitthvað órólegur svo þú skalt bara hringja í hana eða panta tíma strax í dag. Finnist ekkert óeðlilegt með hlustun og/eða sónar skaltu bara vera róleg því útkoman er nær alltaf eðlilegt barn.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir