Óvirkur skjaldkirtill og meðganga?

Spurning:
Ég hef lengi velt einu fyrir mér, þar sem ég er með óvirkan skjaldkirtil frá fæðingu, hvort það séu miklar líkur á að mín börn verði líka með óvirkan skjaldkirtil? Meðganga mömmu minnar gekk vel þegar hún gekk með mig því ég fékk hormónana frá henni en svo eftir fæðingu var ekki allt með felldu og ekkert fannst að mér fyrr en ég var níu mánaða. Hvernig verður þetta þegar ég verð ólétt? Má ég taka lyfið? Ekki fær fóstrið neina hormóna frá mér þar sem ekki er allt í lagi, er það? Get ég átt börn þó ég sé svona? Ég er að spyrja að þessu líka af því að mig langar sjálf í barn. Á ég eftir að þurfa að gefa því pela frá fæðingu eða skilst lyfið ekki út í mjólkina? Það var líka önnur spurning. Mér var sagt að vinstri eggjastokkurinn í konum væri virkari en hægri og að eftir hver mök ætti ég að leggjast á vinstri hlið með hné uppað höku í smá tíma ef ég væri að reyna að verða ólétt. Er það hjátrú?

Svar:
Sæl.
Meðfæddur vanvirkur skjaldkirtill er fremur sjaldgæft fyrirbæri og er talið eiga sér stað í u.þ.b. einni af hverjum 4000 fæðingum. Það myndi vera um 1 barn á ári hér á Íslandi. Í langflestum þessara tilvika (85%) er engin ættarsaga til staðar. Líkurnar á því að þú eignist barn með sama vandamál og þú eru því hverfandi. Hinsvegar, þar sem afleiðingarnar af vanvirkum skjaldkirtli hjá börnum eru mjög alvarlegar, þ.e. líkurnar á því að þau verði vangefin aukast eftir því sem greiningin dregst á langinn, þá er leitað að þessu hjá öllum nýburum á Íslandi. Það er tekið smá blóðsýni úr hælunum á þeim fljótlega eftir fæðinguna og skjaldkirtilshormónin mæld. Ef þau eru greind strax og sett á meðferð með skjaldkirtilshormóni verða þau alveg eðlileg.

Þú getur verið alveg róleg í sambandi við meðgöngu og fæðingu. Þær konur sem eru á réttum skammti af skjaldkirtilshormóni eiga ekki í neinum vandræðum með þetta. Oft þarf að auka thyroxin skammtinn á meðgöngunni og það er gert í samráði við þinn fæðingarlækni og/eða efnaskiptalækni. Það er ekkert að því að gefa barninu brjóst þó þú takir thyroxin.

Mér er ekki kunnugt um að eggjastokkar kvenna séu misvirkir og held að þetta með stellinguna sé eingöngu hjátrú.

Með kveðju,
Arna Guðmundsdóttir, lyflæknir