Par sem á erfitt með að fá fullnægingu

Spurning:

Sæll.

Ég er tvítug og er búin að vera í föstu sambandi sl. 5 mánuði og þótt
kynlífið sé mjög skemmtilegt þá eigum við, við dálítið stórt vandamál að stríða.

Hann er nýbyrjaður að fá fullnægingu við munnmök (tókst sem sagt eftir
margar tilraunir) og hvorugt okkar fær fullnægingu við samfarir. Hvað
vandamálið hjá mér er, veit ég ekki, ég örvast mismikið eftir því í hvaða stellingu við erum en kemst aldrei nema upp að vissu marki. Varðandi hann þá á hann engan veginn við stinningarvandamál að stríða eða neitt slíkt, það er bara mjög erfitt fyrir hann að fá fullnægingu.

Hefurðu einhver ráð handa okkur?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Það að fá ekki kynferðislega fullnægingu við samfarir er nokkuð algengt vandamál hjá konum. Þá er það einnig þekkt vandamál hjá körlum að fá ekki sáðlát við samfarir. Það er kallað seinkað sáðlát, en einkennist yfirleitt af því að sáðlát verður ekki við samfarir. Slíkt er á engan hátt tengt stinningarvanda. Af bréfi þínu má skilja að kynlíf ykkar sé allafslappað og frjálslegt og er það vel, en samt er langlíklegast að einhver spenna sé til staðar, sem kemur í veg fyrir að þið fáið nægilega vel notið kynlífsins. Það er allþekkt fyrirbæri að geta notið kynlífsins upp að vissu marki, en geta ekki sleppt sér nægilega vel til þess að geta leyft kynferðislegri útrás að koma. Yfirleytt er um að ræða meðvitaða eða ómeðvitaða tilraun til stjórnunar á aðstæðum eða eigin líkama, sem orsakar spennuástand, sem kemur í veg fyrir þá fullkomnu slökun, sem nauðsynleg er til að geta fengið kynferðislega útrás.

Að öllum líkindum er nú svo komið fyrir ykkur að þið eruð of upptekin af því að þið fáið ekki fullnægingu og það útaf fyrir sig skapar nægilegt spennuástand til að koma í veg fyrir að þið fáið kynferðislega útrás. Reynið að slaka á gangvart þeirri hugsun og flytja áhersluna á nautn og slökun í stað þess að hafa áhersluna á fullnægingu. Þetta er hins vegar erfiðara en að segja það án utanaðkomandi aðstoðar.

Þið getið lesið um þetta í ritum, sem fjalla um kynlífsvandamál t.d. Sálfræðibókinni, en líklegast er að þið þurfið að leita ykkur aðstoðar hjá sérfræðingi um kynlífsvandamál til að takast á við þetta. Yfirleitt er tiltölulega auðvelt að vinna á svona vanda, ef bæði eru ákveðin í því og gefa sér þann tíma sem þarf og leggja á sig það sem til þarf og önnur vandamál í sambandinu trufla það ekki.

Lífið og kynlífið er til að njóta þess, svo gangi ykkur vel,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur