Parkinsons og sjúkraþjálfun

Spurning:

Ég er með Parkinsonssjúkdóm og er alltaf að fá ráðleggingar um að fara í sjúkraþjálfun.

Hver er tilgangurinn fyrir mig að fara í sjúkraþjálfun?

Hvers vegna verð ég svo mikið þreytt eftir alla hreyfingu og allt erfiði?

Svar:

Eins og þér er væntanlega kunnugt er engin lækning til við Parkinsons veiki enn sem komið er. Það eru notuð lyf til að draga úr einkennum og einnig getur sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun komið að gagni til þess að draga úr einkennum og hægja á framþróun sjúkdómsins.

Sjúkraþjálfun skilar helst árangri gagnvart stirðleika, jafnvægistruflunum, erfiðleikum með göngu og einnig getur sjúkraþjálfarinn bent þér á leiðir til að draga úr þeirri dæmigerðu hoknu líkamsstöðu sem stundum fylgir Parkinsonssjúkdómnum. Meðferðin fer yfirleitt þannig fram að fólk lærir æfingar til að gera sjálft sem það á að stunda til frambúðar og sjúkraþjálfarinn veitir aðhald og stuðning ásamt því að hjálpa fólki með þær hreyfingar sem það á erfitt með, gerir teygjuæfingar með því og fleira. Sumsstaðar er einnig boðið upp á hópþjálfun fyrir Parkinsonssjúklinga (t.d á Reykjalundi www.reykjalundur.is/reykjalundur.nsf/pages/parkinson.html. Þegar fólk hefur verið greint með ólæknandi sjúkdóm eins og Parkinsons er mikilvægt að það afli sér upplýsinga um þær leiðir til sjálfshjálpar sem til eru en treysti ekki bara á lyfjameðferð. Mikinn upplýsingabrunn er að finna hjá Parkinsonssamtökunum en þau hafa opnað heimasíðu www.parkinson.is, netfangið þeirra er parkinson@parkinson.is ef þú vilt setja þig í samband við þau.

Ég hef rætt töluvert við Parkinsonssjúklinga síðustu daga um þessa þreytu sem þú lýsir og kannast þeir vel við hana þó ég hafi ekki séð henni lýst sem sjúkdómseinkenni. Þreyta og þrekleysi getur einnig verið afleiðing af minni virkni sem gjarnan fylgir Parkinsonssjúkdómnum. Það er í raun ekki vitað af hverju þetta er og kannski er það ekki það mikilvægasta, heldur hvað getur þú gert í því. Þeir Parkinsonssjúklingar sem hafa lagt stund á æfingar í einhvern tíma segja flestir þá sögu að að þeim líður betur andlega, eru liprari í hreyfingum, göngulagið batnar og þrekið eykst. Ég mæli því eindregið með því að þú farir í sjúkraþjálfun og látir reyna á það hvað hún getur gert fyrir þig og leitir til Parkinsonssamtakana til að fá meiri upplýsingar um leiðir til betra lífs og sjálfshjálpar. Sjúkdómurinn hefur ekki einungis áhrif á þig, þú getur líka haft áhrif á hann.

Högni Friðriksson, sjúkraþjálfari