Parkódín og aukaverkun

Fyrirspurn: Í febrúar 2007 handleggsbrotnaði ég frekar illa og voru tvær vikur þar sem ég tók inn allt að 4 parkódín forte á dag. Ég er nú löngu búin að jafna mig á þessu og þarf ekki lengur verkalyfin. En það hefur komið fyrir í amk 3 skipti sem ég hef kannski átt erfiðleika með að sofna og hef þá fundið parkodín forte í skápnum og tekið inn til að hjálpa mér að slaka á og sofna. En málið er þá að ca 3 klukkustundum seinna hef ég vaknað við hryllilegan verk. Í fyrstu gat ég ekki fundið út hvar mér var illt, en svo fann ég að hann virtist einhvern veginn vera í rifbeinunum. Þetta er stöðugur verkur sem endist oft í ca 30 – 60 mínútur og á meðan er ekkert sem ég get gert til að lina verkinn… skiptir engu máli hvort ég stend, sit, geng um gólf eða ligg. Í fyrstu gat ég ekki tengt þennan verk við neitt en núna sl. 6 mánuði hefur þetta gerst 3x og þá í skipti sem ég hef tekið inn parkódín forte fyrir svefninn. Það eru einu skiptin sem ég hef tekið það inn eftir að ég lagaðist í hendinni. Hvað gæti verið í gangi?

Svar: 

Sæl, Ég myndi í þínum sporum hætta að taka inn parkópdín forte, enda er það lyf fyrst og fremst verkjalyf en EKKI svefnlyf. Í texta um lyfið segir m.a.: “Parkódín forte er blanda tveggja verkjastillandi efna sem hafa ólíka verkun. Lyfið hefur einnig hitalækkandi áhrif. Lyfið er notað við ýmis konar verkjum, t.d. höfuðverk, tannverk og tíðaverk.” Einnig vil ég nefna við þig að kódein í parkódíninu getur valdið ávana og fíkn og þess heldur skal það notað með varúð. Þessi verkur sem þú talar um er ekki að finna í texta yfir skráðar aukaverkanir en vonandi hverfur þetta þegar þú hættir inntöku lyfsins.Ef þetta heldur áfram þá er ráð að panta sér tíma hjá heimilislækni. Bestu kveðjur,

Unnur Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur