Penicillin – útbrot og kláði?

Spurning:
Góðan daginn.
Er í lagi fyrir 5 ára barn sem er grunuð um penicilínofnæmi með útbrotum og kláða að taka inn lyfið Atarax 2 á dag samhliða Keflex? Hún er með streptókokka og er búin að fá 3 tegundir af sýklalyfjum en fengið útbrot og kláða af þeim öllum.
Með kveðju.

Svar:

Keflex (cefalexín) er úr flokki svokallaðra cefalóspórína. Þessi lyf eru skyld penicillínum og eru lík þeim að byggingu og verkun. Almennt er varað við því að gefa þeim sem hafa penicillínofnæmi þessi lyf, þar sem um svokallkað krossofnæmi getur verið að ræða. Það þýðir að ofnæmi fyrir lyfjum úr öðrum lyfjaflokknum getur þýtt að viðkomandi hafi einnig ofnæmi fyrir lyfjum úr hinum flokknum.
Atarax er ofnæmislyf sem notað er við ofnæmi af ýmsum toga.
 
Spurningin er um það hvort óhætt er að gefa barninu Keflex. Það verður þú að ræða við lækninn. Þó svo að almenn regla sé að gefa ekki cefalóspórín þegar um penicillínofnæmi er að ræða, gæti hann metið það óhætt með því að gefa ofnæmislyf með.
 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur