Persónuleikabrestir

Spurning:

50 ára – kona

Sæl verið þið.  Ég og maðurinn minn erum búin að vera saman í 21 ár.  Hann hefur aldrei rauninni gert neitt sem gæti verið ástæða til að skilja við hann t.d. framhjáhald,líkamlegt ofbeldi, ofdrykkja eða neinskonar fýknir.  Við eigum 2 börn 11 og 15 ára allt virðist í lukkunnar standi á yfirborðinu. En  eg hef verið að kljást við kvíða síðastliðin 10 ár.  En vandamálið sem snýr að mér er mislyndi hans sem lýsir sér þannig að fær einhverja flensu eða kvef eða illa gengur í vinnunni þá fæ ég alveg örugglega að finna fyrir því.  Hann hefur oft ekki svarað mér svo dögum og vikum skiptir. Er bara í sinni fýlu og finnst hann bara mega vera þar. Nú er svo komið að ég er að hugsa um að skilja við hann.
Mig langar til að koma með eina fyrirspurn. Ég veit að maður breytir ekki öðrum og allra síst eftir manns eigin smekk, en væri það raunhæfur kostur að fá hjálp með slíka persónulega bresti? ( mislyndi hans)

Með fyrirfram þökk X50 ára – kona

Svar:

Sæl og blessuð X.

Í raun er svarið við þessari spurningu bæði einfalt og flókið. Svo einfalda svarið komi nú fyrst þá er það „já“. Já, það er hægt að fá hjálp til að vinna á slíkum brestum í persónuleika einstaklings sem þú lýsir hér. Hjálpina er hægt að fá hjá bæði sálfræðingum og geðlæknum. En það sem er svo flókið og oft erfitt við slíka stöðu er, að sá sem þarf á hjálp að halda, í þessu tilfelli maki þinn, þarf sjálfur að vilja leita sér aðstoðar. Og til þess að vilja leita sér aðstoðar þarf hann að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna að hann þurfi á hjálp að halda. Það er fyrsta og oft erfiðasta skrefið í átt að lækningu. Ég myndi ráðleggja þér að ræða þetta við hann í fullri hreinskilni, segja honum hvað þú sért að hugsa og standa föst á því að hann verði að leita sér aðstoðar – annars sé samband ykkar á enda. Ég myndi líka hvetja þig til að vera búin að undibúa jarðvegin, kanna hvert best sé að leita osfrv, jafnvel panta tíma.

Gangi ykkur vel – kveðja sr.Þórhallur Heimisson