Prótein og Lecitin á meðgöngu

Fyrirspurn:

Ég er ófrísk og komin um 4 mánuði á leið. Er mér óhætt að setja hreint prótein út í ávaxtadrykkinn minn á morgnana (soyamjólk, hrísmjólk, safi, frosin jarðaber, möndlur og döðlur), eins og ég gerði áður en ég varð ófrísk? Og er mér óhætt að setja hreint Lecitin út í drykkinn minn líka? 

Svar:

Sæl,

Hvað varðar próteinin gildir það sama og með aðra næringu. Of mikið er ekki gott og samband þarf að vera á milli þess sem er innbyrt og þess sem er brennt. Ráðlagður dagskammtur af próteinum er í kringum 0,8 g/kg. Ekki er ólíklegt að ófrískar konur þurfi meira en þó ber að hafa í huga að almennt er talið að ekki þurfi að innbyrða meira en 300 kaloríur á dag meðan á meðgöngu stendur. Sem dæmi innihalda tvær bakaðar kartöflur u.þ.b. 300 kcal. Miðað við þetta ætti ófrísk kona að innbyrða um 2500-2700 kcal á sólarhring. M.ö.o. hafi mataræði verið heilbrigt fyrir meðgöngu þarf lítið að breyta út af á meðan meðgöngu stendur. Ólíklegt verður að teljast að aukaprótein valdi barninu þínu skaða ef ofangreindar forsendur eru hafðar í huga en því miður hefur þetta, eins og svo margt annað, ekki verið rannsakað sérstaklega.

Nú þekki ég ekki ástæðu þess hvers vegna þú setur hreint prótein út í matinn, hvort það er tengt líkamsrækt, veikindum eða einhverju öðru. Það er ágætt að hafa í huga að borði maður hollan og góðan mat dugar hann auðveldlega til að uppfylla næringarþörf okkar. Fæðubótarefni ætti ekki að borða nema sterkar ástæður liggi að baki eins og vel kann að vera í þínu tilfelli.

Lecitin og choline (eitt af aðalefnunum í Lecitini) eru ákveðin fitu efnasambönd sem við fáum einnig úr fæðunni. Ekki er mælt séstaklega með notkun cholines á meðgöngu aukalega við það sem kemur úr fæðu einfaldlega vegna þess að áhrif þess á fóstur hafa ekki verið rannsökuð. Þó hefur verið sýnt fram á að hæfileg inntaka cholines er mikilvæg fyrir þroska heila í fóstrum. Mælt er með að það sé innbyrt beint úr mat en egg eru til dæmis rík af þessu efni.

Kveðja,
Þórir Benediktsson
Lyfjafræðingur