Punktar á líkamanum?

Spurning:
Góðan dag.
Mig langar til að forvitnast um hvort þið getið gefið mér einhverjar upplýsingar um punkta á líkamanum sem hægt er að þrýsta á og losna þannig við uppsöfnuð ,,úrgangsefni“. Þá er ég ekki að meina á fótunum, heldur t.d. á höfði og höndum. Hef mikinn áhuga á að komast að þessu, ég nudda t.d. títt á mér gagnaugun ef ég er að fá höfuðverk, eða þrýsti á hnakkann á mér. Eru þessir punktar kannski ekki til. Ein forvitin um líkamann 🙂

Svar:

Sæl.

Líkami okkar er frábært sköpunarverk og hefur mikla hæfileika til að laga sig sjálfur, hann er mjög flínkur að nýta sér alla þá aðstoð og góðan ásetning sem við gefum honum. Til að losun úrgangsefna sé góð er mikilvægt að drekka vel af vatni til að hjálpa nýrunum, nýrna- lifrar og blöðru orkan þarf að vera góð og orku og vökvaflæði um líkamann einnig. Það er hægt að finna punkta á ytra eyra sem hvetja starfsemi þessara líffæra þegar þeir eru stungnir eða nuddaðir.

Annað sem hægt er að gera og er mjög árangursríkt, er að stoppa heila-og mænuvökvataktinn í ákveðinn tíma (10 til 15 mín.). Til að stoppa taktinn er hægt að nota einfalt hjálpartæki, sem er að setja tvo tennisbolta inn í einn sokk hvorn á eftir öðrum og hnýta svo þétt fyrir, einnig er til sérstakt áhald til að stoppa taktinn með, “stillpoint induser” , oft kallað “brjóst” vegna útlits sins. Slík “brjóst” fást hjá flestum höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferðaraðilum. Þegar “lagst er á brjóst” eða bolta, er legið á baki á gólfi eða öðru þéttu undirlagi og boltunum komið fyrir undir hnakka. Legið er með fullann þunga höfuðs á boltunum, þeir eru staðsettir þannig að þeir lendi sitt hvoru megin við hæstu bungu hnakka, sú hæð er c.a. í línu við augu. Þetta er gert eins og áður segir í 10 til 15 mínútur í einu og má gera oft á dag, en mjög gott er að enda daginn á þessu. 

 Heila-og mænuvökvi er vökvi sem flæðir um heila og mænu. Hlutverk hans er m.a. að næra miðtaugakerfið og verja. Heila- og mænuvökvinn er framleiddur þannig að ákveðnar æðaflækjur vinna hreinan vökva úr slagæðablóði og veita þeim vökva inn í heila- og mænuhimnur. Þessi vökvi er síðan frásogaður út úr kerfinu um bláæðastokka út í bláæðarnar. Þessi framleiðsla og frásog á heila- og mænuvökva á sér sífellt stað og er taktföst og regluleg og myndast taktföst útþensla og samdráttur á miðtaugakerfinu vegna þessa. Þessi taktur flæðir eftir öllu himnukerfi líkamans og eru því himnur líkamans alltaf að taka þátt í þessum takti. Með því að stöðva þennan takt í ákveðinn tíma og þar með minnka framleiðslu þessa vökva mjög mikið þann tíma, þá erum við að gefa himnukerfi líkamans tækifæri til að vera í algerri slökun á meðan á stoppinu stendur. Þar sem líkaminn hefur alltaf viðleitni til að laga sig sjálfur, notar hann tækifærið og vindur ofan af sér allri þeirri uppsafnaðri spennu sem hann ræður við að losa sig við sjálfur. Við það losnar um stíflur og orku og vökvaflæði líkamans eykst, þar með losun úrgangsefna, næring til liðamóta og síðast en ekki síst þá eykst í kjölfarið flæði næringarefna til heilafruma.

 

Kveðja

Erla Ólafsdóttir sjúkraþjálfari