Roaccutan – Decutan?

Spurning:
Mig langaði að spyrja hvort það megi drekka áfengi samhliða meðferð með Decutan því ég hef heyrt að það megi ekki með Roaccutan en ég finn bara engar upplýsingar um Decutan. Og ef svo er ekki, er þá verið að tala um alls ekkert áfengi eða bara í hófi? Svo langaði mig líka að vita hvort þú hafir einhver ráð gegn þurri húð sem fylgir þessari meðferð, einhver góð rakakrem sem mælt er með eða þá önnur ráð sem reynst hafa vel. Ég er nefnilega sjálf í meðferð með Decutan og fæ svo rosalega þurrkubletti í kringum munninn sem fara mjög í taugarnar á mér og ég vil helst losna við sem fyrst! Og eitt að lokum, þegar meðferð með Decutan lýkur, er þá húðin fullkomlega bólulaus og bóluöralaus? Hvaða árangri má ég sem sagt búast við eftir meðferðina? Með von um svar. Bólustelpan

Svar:
Decutan er eftirlíking af Roaccutan. Þessi tvö lyf innihalda þannig sama virka efnið, sem heitir ísótretínóín. Því eiga allar upplýsingar um Roaccutan einnig við um Decutan.Húðsjúkdómalæknar, sem einir mega ávísa lyfinu, mæla almennt með því að áfengis sé alls ekki neytt meðan á töku lyfsins stendur. Ég ráðlegg þér að spyrja húðsjúkdómalækninn þinn um þetta þar sem upplýsingar hvað áfengisneyslu varðar geta verið misvísandi.Ekki er mælt með neinum ákveðnum rakakremum vegna þurrks af völdum þessara lyfja. Gott er að bera eitthvað feitt smyrsli, vaselín, júgursmyrsli eða varasalva í kringum varir. Ekki er hægt að lofa því að húðin verði bólu- og öralaus um alla framtíð eftir að meðferð með ísótretínóíni lýkur. Það er hins vegar lang öflugasta lyfið við bólum á markaði og flestir ná góðum bata með því.Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur