Rúmlega 5 ára og kúkar enn í bleyju?

Spurning:
Ég á son sem er rúmlega 5 ára og kúkar enn í bleyju. Við erum búin að reyna allar þessar verðlauna- og stjörnuráðgjafir en hann vill einfaldlega ekki taka þátt í þessu. Hann hætti með bleyju 2 ára og hefur aldrei verið nein vandræði með það. Hann hefur aldrei pissað undir eða komið slys. Þeir læknar sem ég hef rætt við varðandi það að hann kúki enn í bleyju segja að það sé svo sem lítið hægt að gera þar sem að hann hafi fullkomna stjórn á þessu sjálfur. Þetta eru ekki meltingatruflanir né hægðatregða. Til dæmis veit hann að hann getur haldið í sér í 2-3 daga og hann gerir það hiklaust ef við erum e-ð að láta reyna á þetta.

Staðan í dag er orðin sú að núna eigum við von á öðru barni og við héldum að það myndi kannski aðeins ýta undir það að hann vildi hætta að kúka í bleyju þar sem hann væri nú að verða stóri bróðir… síður en svo, hann spyr bara hvort ég myndi skipta á sér eða litla barninu á undan!!!!

Á ég að hafa samband við barnasálfræðing, þar sem þetta er auðvitað farið hvíla svolítið á honum. Það hafa ekki verið nein önnur vandræði með hann og er hann mjög duglegur og hefur mjög góðan hreyfiþroska, bæði fín- og grófhreyfingar.

Svar:
Þú segir að þið hafið reynt allar stjörnu- og verðlaunaráðgjafir án árangurs. Mér er þó til efs að þeim hafi verið fylgt út í hörgul eins og verður að vera ef þær eiga að skila einhverju. En látum það liggja á milli hluta. Nú veit ég ekki hvað er að gerast í lífi þessa stráks og ætla mér ekki að geta mér til um hvað þarna getur legið að baki. En kannski gæti sálfræðingur komist að einhverju með nokkrum viðtölum. En hafið þið reynt að láta drenginn ráfa um bleyjulausan?

Kvartar hann þegar hann er búinn að gera í sig? Ef svo er má láta hann finna fyrir þessum óþægindum í dálitla stund áður en hann er þrifinn. Ég hef áður vikið að því hér að það má þvo svona börnum upp úr köldu vatni (gamalt húsráð) til að gera þetta enn óskemmtilegra fyrir þau. Ef það fer að vera óæskilegt og óþægilegt FYRIR HANN að gera í buxurnar ætti hann að láta af því sjálfur. Þú segir að þetta sé farið að hvíla á honum, sem kemur þó ekki heim og saman við það að hann hafi fullkomna stjórn á þessu. Kannski er hann að sækjast eftir umönnun, athygli og snertingu með þessu.

Finnst gott að láta sinna sér svona. Þá er ráð að reyna að sinna honum vel þegar hann hefur ekki gert í buxurnar en reyna, eins og ég sagði áðan, að sjá til þess að hann fái sem minnst út úr því þegar hann gerir í sig, láta hann ekki njóta þess, helst hið gagnstæða. Ykkur kann að virðast þetta kaldranalegt og illa gert gagnvart saklausu barni en því er lítill greiði gerður með því að senda það með bleyju út í lífið.

Með kveðju Reynir Harðarson sálfræðingur S: 562-8565