Sekkur en ekkert fóstur?

Spurning:
Ég er ófrísk og fór til kvensjúkdómalæknis. Hún setti mig í vaginal ómskoðun og þá kom í ljós að það var sekkur í leginu en ekkert fóstur og ég þarf að fara í útskröpun. Hvað er þetta í rauninni og afhverju gerist þetta?

Svar:

Það sem hér um ræðir kallast dulið fósturlát. Þá hefur egg frjóvgast og tekið sér bólfestu í legslímhúðinni og fylgja og fósturbelgur tekið að vaxa en fóstrið sjálft ekki náð að hefja þroska. Þetta er töluvert algengt en oftast losnar þetta sjálfkrafa úr leginu. Þó kemur fyrir að þetta losnar ekki sjálfkrafa og heldur uppi fylgjuhormónum og meðgöngueinkennum og þá kallast það dulið fósturlát. Það þarf að skrapa þetta innan úr legslímhúðinni til að eðlilegur tíðahringur komist aftur á.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir