Seroxat á meðgöngu

Spurning:

Góðan dag.

Mig langar að spyrja sérfræðing ykkar um áhrif töku Seroxat á fóstur á meðgöngu. Ég hafði tekið lyfið inn í u.þ.b. 6 mánuði þegar ég varð ólétt. Þegar ég uppgötvaði að ég væri ólétt reyndi ég að hætta því en það gekk ekki upp. Ég tók 2 töflur á dag (20 mg x 2) en hef náð að minnka skammtinn niður í 1/2 töflu. Mikill svimi kom þegar ég hætti skyndilega svo ég trappaði mig niður og það hefur gengið svona þokkalega. Er eitthvað vitað um áhrif á fóstur á meðgöngu og svo aftur þegar kemur að brjóstagjöf. Ég væri mjög þakklát að heyra álit ykkar því ég hef fengið ansi misjöfn svör frá læknum.

Með þökk fyrir frábæra vefsíðu.

Svar:

Takmörkuð reynsla er af notkun lyfsins á meðgöngu og því er ekki hægt að segja með vissu hvort það sé í lagi að taka lyfið eða ekki. Þegar þannig er farið metur læknir venjulega ástand þeirrar barnshafandi konu sem á í hlut (þörf hennar fyrir lyfið) og hins vegar hugsanlega áhættu fyrir fóstrið. Þegar hætt er að taka Seroxat er mælt með því að það sé gert smám saman (eins og þú gerðir í seinna skiptið). Lyfið skilst út í brjóstamjólk og því ekki ráðlegt að taka lyfið á meðan barn er á brjósti.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur