Síendurtekin blöðrubólgueinkenni?

Spurning:
Spurning til Vals Þórs Marteinssonar
Ég var í blöðruspeglun vegna síendurtekinna blöðrubólgueinkenna, en aldrei ræktuðust sveppir eða bakteríur. Í spegluninni sáust bólguhellur á víð og dreif, og taldi læknirinn að um væri að ræða millivefja blöðrubólgu. Hvað er til ráða? Á ég að panta tíma hjá þvagfæraskurðlækni og hvað er hægt að gera? Hef aðeins verið að lesa mér til á amerískum vefsíðum, en er ekki mjög fær í ensku læknamáli 🙂
Kveðja

Svar:
Sæl, svar mitt er þannig:
Millivefsblöðrubólga (e. interstitial cystitis) er langvinnur sjúkdómur af óþekktum uppruna sem greinist helst hjá konum, meðalaldur við greiningu er 40-45 ár. Einkennin geta verið breytileg og trufla mjög lífsgæði sjúklings, en greining sjúkdómsins er iðulega erfið og umdeild á stundum. Engin þekkt meðferð læknar sjúkdóminn en getur vissulega haldið einkennum niðri þegar best lætur. Ég hygg að skynsamlegast sé að panta tíma hjá þvagfæraskurðlækni sem hefur reynslu af greiningu og meðferð þessa umdeilda sjúkdóms, en meðferðin ræðst m.a. af einkennum og ástandi blöðrunnar.

Bestu kveðjur,
Valur Þór Marteinsson, þvagfæralæknir