Sinadráttur

Góðan dag.
Ég er með svo mikinn sinadrátt í báðum fótum á nóttunni,er til einhver ráð við því
Með fyrirfram þökk.

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það eru ýmsar orsakir fyrir sinadrætti en sú algengasta er skortur á magnesium eða ójafnvægi á kalki og magnesium í líkamanum og/eða E-vítamínskortur. Aðrar ástæður geta verið skert blóðflæði, hreyfingarleysi eða of mikið álag á vöðva vegna íþrótta svo eitthvað sé nefnt. Þú skalt borða daglega fæðu sem er sérstaklega magnesíumrík t.d. ýmiskonar grænmeti eins og salat, broccoli, avocado o.fl., kornmeti, baunir, hnetur og möndlur. Eins eru bananar og þurrkaðar aprikósur sérlega magnesíumrík fæða. Þú þarft líka að passa að drekka nóg af vökva því vökvatap getur stuðlað að því að ójafnvægi kemst á saltbúskapinn sem þá veldur því að þú færð sinadrátt. Margir ná að losna við sinadrátt að nætulagi með því að huga að þessu sérstaklega. Hófleg hreyfing er líka mikilvæg og þú þarft að passa að teygja vel á vöðvunum eftir hreyfingu.

Ef þú nærð ekki að losna við sinadráttinn með því að fylgja þessum leiðbeiningum skaltu fara til læknis. Það eru mögulega aðrar ástæður sem gætu orsakað þessi einkenni sem þarfnast þá frekari rannsókna.

Gangi þér vel