Sjónhimnulos

Fyrirspurn:


Er hægt að lækna Sjónhimnulos á ungu fólki ?

Aldur:
42

Kyn:
Karlmaður 

Svar: 

Takk fyrir fyrirspurnina,

Þessu hefur verið vel svarað hér áður á Doktor.is af Jóhannesi K. Kristinssyni, augnlækni og læt ég það svar duga.

Sæll/sæl.

Sjónhimnulos (retinal detachment) gerist þegar los verður á sjónhimnunni, sem er himnan sem þekur augað að innan (einskonar veggfóður augans). Þessi himna er merkileg að því leyti að hún greinir ljós og sendir boð um það til heilans, sem síðan vinnur úr því þannig að við sjáum mynd. Má líkja henni við filmuna í myndavél. Glerhlaupið köllum við gegnsæja hlaupið sem fyllir augað að innan. Hlaupið getur stundum togað í sjónhimnuna og jafnvel rifið hana eða losað hana frá. Ef þessi himna losnar, þá versnar sjón eða jafnvel hverfur. Því er sjónhimnulos einn af alvarlegustu augnsjúkdómunum. Sjónhimnulos er sem betur fer sjaldgæft, kemur fyrir u.þ.b. 1% fólks. Það er þó algengara í nærsýnu fólki, fólki sem hefur gengist undir augnaðgerðir, eftir miklar augnbólgur og í sykursýki. Einnig kemur fyrir að sjónhimnan losni eftir högg á augað.

Einkenni sjónhimnuloss eru eftirfarandi:

1. Ljósglampar í sjónsviðinu, jafnvel með augun lokuð. Þegar togað er í sjónhimnuna skynjar hún togið sem glampa og því skynjar fólk oft fyrst glampa þegar sjónhimnan er að losna af.

2. Flygsur. Nokkrar flygsur eru eðlilegar, en þegar flygsurnar verða allt í einu margar getur verið um sjónhimnulos að ræða. Oft er um rifu á sjónhimnu að ræða sem verður síðar að sjónhimnulosi. Litarefnisagnir og frumur geta komist út um þessa rifu og skynjar maður það sem flygsur.

3. Dökk gardína/slæða yfir sjónsviði. Þetta er alvarlegasta einkennið, þegar sjónhimnan er að losna af. Hún losnar oftast fyrst í jaðri sjónsviðsins og fer síðan nær miðjunni. Ef hún nær miðju sjónarinnar, þ.e. þar sem skarpa sjónin er, þá eru miklu minni líkur á því að skarpa sjónin komi nokkurn tíma aftur.

Meðferð við sjónhimnulosi þarf helst að gerast sem fyrst, en hún er eftirfarandi:

1. Í mjög vægum tilfellum, þar sem losið er lítið og afmarkað má gefa lasermeðferð í kringum svæðið. Það getur hindrað útbreiðslu lossins.

2. Í sumum tilvikum er hægt að setja loft inn í augað með þar til gerðri sprautu, sem ýtir þá á sjónhimnuna sem losnað hefur frá. Þetta er hægt ef losið er ofan til í auganu.

3. Í flestum tilvikum þarf þó að framkvæma aðgerð, þar sem sett er belti í kringum augað og því þrýst upp að sjónhimnunni sem losnað hefur. Síðan er gefin frystimeðferð til að festa sjónhimnuna við undirliggjandi vef. Þessi aðgerð heppnast í 8 af hverjum 10 tilfellum, en er vandasöm og þarf helst að gerast sem fyrst eftir að losið hefur átt sér stað. Í þessari aðgerð þarf stundum að setja olíu inn í augað eða loft og þarf þá einstaklingurinn stundum að vera í ákveðinni stellingu eftir aðgerðinni til að loftbólan þrýsti á réttan stað – þ.e. staðinn sem losið hófst og rifan er. Þetta getur tekið langan tíma og er oft erfitt fyrir sjúklinginn. Árangurinn getur þó verið mjög góður ef góð samvinna læknis og sjúklings næst.

Ég vona að þetta hafi svarað spurningunni að nokkru leyti. Ég hvet þig til að kanna málin frekar á vefnum undir leitarorðunum "retinal detachment". Eftirfarandi slóð er t.d. mjög góð:

www.theretinasource.com/conditions/retinal_detachment.htm

Gangi þér allt í haginn,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.