Sjónlagsaðgerð án laser?

Spurning:
Kæri Jóhannes augnlæknir.

Hvenær verður farið að gera sjónlagsaðgerð þar sem ekki er notaður laser? Ég er alltaf að hugsa um þetta (er 29 ára og búin að safna fyrir aðgerðinni fyrir löngu;) ) og hefði farið í aðgerðina síðast í apríl ef 6 mánaða biðin hefði ræst (er á ,,biðlistanum“ 🙂 ). Eruð þið komin með aðstöðuna til að framkvæma hana? Ég bíð mjög spennt og hlakka til að þurfa ekki að nota gleraugu mikið lengur (þau fara mikið í taugarnar á mér) og ég þoli ekki að hafa linsur meira en einn til tvo daga í viku þá er ég komin með svo mikinn kláða í augnkrókana og kemst ekki hjá því að vera stöðugt að nudda augun og mikið slím safnast fyrir. Ef ég er að fara út eitthvert kvöldið, þá duga þær ekki lengi, sérstaklega ekki á skemmtistöðum þar sem er reykmökkur. Ef ég fer í bíó eða leikhús þorna þær upp og ég er farin að píra augun til að sjá betur. Gleymi oft að hafa augndropa með mér.
Með fyrirfram þakkir um svar, A

Svar:
Sæl A.
Jú, við erum öll spennt fyrir því að geta sett inn linsu í augu þeirra sem eru með nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju og komast ekki í lasersjónlagsaðgerð. Staðreyndin er þó sú að það hefur verið erfitt að komast í aðstöðu til að framkvæma slíka aðgerð, og hefur óneitanlega vegið þyngst ósveigjanleiki opinberra aðila í því efni. Við höfum því ákveðið að útbúa aðstöðuna sjálf hér í Sjónlagi og búumst við að fara að framkvæma slíkar aðgerðir í janúar á næsta ári á nýrri og fullkominni augnskurðstofu, sem verður fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Á þeirri skurðstofu verða einnig framkvæmdar aðgerðir við skýi á augasteini og er vonandi að okkur takist að stytta biðlistann í þeim aðgerðum líka. Ég hvet þig til að hafa samband við okkur í janúar og athuga málin.

Bestu kveðjur,

Jóhannes Kári.