Sjúklega lífhrædd

Spurning:

Komið þið sæl.

Ég veit ekki hvern ég á að spyrja til að leita aðstoðar.

Málið er að ég er svo ofboðslega hrædd við dauðann. Stundum get ég ekki sofnað á kvöldin því ég er svo hrædd um að vakna ekki aftur. Ég er mjög hrædd um að fá einhvern lífshættulegan sjúkdóm o.s.frv. (er 23 ára).

Hvað get ég gert? Á ég að tala við sálfræðing?? Er þetta þunglyndi??
Ég á eins árs gamlan son en hef ekki fengið þunglyndi í kjölfar fæðingar hans.

Ég er frekar stressuð með mikla vöðvabólgu og fæ stundum hálfgerða andateppu og hef miklar áhyggjur af því.

Getur það verið kvíði, hræðsla og stress??

Með fyrirfram þökk og von um skjót svör,

Ein hrædd,

Svar:

Svar til einnar sem er hrædd.

Komdu sæl.

Það er greinilegt á spurningu þinni að þér líður mjög illa. Ekki veit ég hvort þessi líðan er nýtilkomin eða hvort þér hefur liðið svona lengi. Þessi vanlíðan þín virðist snúast mest í kringum mikinn kvíða, bæði við að veikjast, að eitthvað sé að þér eða jafnvel að þú getir dáið. Svona vondar kvíðatilfinningar eru nokkuð algengar og þær eru í raun skilaboð til okkar um að við þurfum að gera eitthvað til þess að okkur líði betur.

Það er ýmislegt sem getur skapað svona vonda líðan. Þú nefnir sjálf langvarandi stress sem birtist í vöðvabólgu og svo er það alltaf mikið álag og áhyggjur sem fylgja því að vera með lítið barn. Í svona umhverfi þrífast neikvæðar hugsanir oft vel og þær geta verið býsna stjórnsamar. Ýmislegt fleira gæti skýrt þessa vanlíðan þína en til þess að segja til um það þarf betri upplýsingar.

Ég hvet þig eindregið til þess að leita til sálfræðings. Hann getur kennt þér að hafa minni áhyggjur, vera minna hrædd og hjálpað þér til þess að líða betur.

Bestu kveðjur.

Hörður Þorgilsson, sálfræðingur