Sjúkraþjálfun og vefjagigt

Spurning:

Ég hlustaði nýlega á fyrirlestur hjá sjúkraþjálfara. Þar talaði m.a. um vefjagigt og fullyrti hún að vefjagigt væri fínt orð yfir þunglyndi. Það væri engin líkamleg einkenni, aðeins ímyndun, sjálfsvorkun og ofnotkun lyfja. Því langar mig að spyrja:

Er vefjagigt geðrænn sjúkdómur?

Ef ekki:

Hvers eðlis er hann þá?
Hverjar eru orsakir hans?
Hver eru einkenni hans?
Hvernig lyf eru best eða eru ekki gefin lyf?
Getur sjúkraþjálfun hjálpað sjúklingi?

Ef svo er, er ömurlegt til þess að vita að þetta er viðhorf sjúkraþjálfara er ekkert einsdæmi og sjúkraþjálfarar virðast ekki vita hvaða meðferð hentar eða m.a. ekki vera sammála um það. Því kemur næsta spurning. Hvernig þjálfun hentar best.

Með þökkum.

Svar:

Í stuttu máli sagt þá get ég fullyrt að vefjagigt er ekki fínt orð yfir þunglyndi. Vefjagigt er heiti yfir heilkenni (syndrome) sem samanstendur af fjölmörgum einkennum, bæði líkamlegum og andlegum. Eitt af þessum einkennum er þunglyndi, en þó eru ekki allir þeir sem eru með vefjagigt með það einkenni. Erfitt er að svara spurningum þínum í stuttu máli því um er að ræða mjög flókinn sjúkdóm eða heilkenni. Orsakir geta verið margar m.a. er talið að erfðir ráði einhverju um hverjir fái vefjagigt, síðan er eitthvað sem kemur ferlinu af stað t.d. líkamlegt og/eða andlegt álag, áverkar, svefntruflanir. Helstu einkenni vefjagigtar eru verkir í vöðvum og vöðvafestum, yfirþyrmandi þreyta, svefntruflanir, einbeitingarskortur, minnisleysi, órólegur ristill o.fl. Lyf sem dýpka svefn eru mikið notuð og gefa oft góða raun. Meðferð hjá sjúkraþjálfara sem hefur þekkingu á vefjagigtinni getur hjálpað, því að einkenni frá stoðkerfi eru veruleg.

Margar bækur hafa verið skrifaðar um vefjagigt og get ég bent þér á eina mjög góða og ítarlega ( Fibromyalgia & Chronic Myofascial Pain Syndrome, Devin Starnalyl. M.D., Mary Ellen Copenland, M.S., M.A. ). Eins get ég bent þér á að í Sjúkraþjálfun Styrks eru haldin námskeið um vefjagigt.

Ég vona og tel að viðhorf þessa sjúkraþjálfara séu ekki almenn innan stéttarinnar.

Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari.