Slím í augnkrókum?

Spurning:
Jæja góðan dag
Ég hef reyndar sent fyrirspurn um þetta áður en vandamálið mitt er að ég fæ mjög miklar stírur í augun, aðallega þegar ég vakna. Þetta er mikið vandamál því þetta er ekki bara svona smá sem maður nuddar úr í augnkrókunum heldur í kringum allt augað og tekur langan tíma að ná úr. Ég hef þrisvar leitað til heimilislæknisins sem ég hef, fyrst gaf hann mér eina tegund af augnsmyrsli sem ég átti að bera í augun í 2 vikur en það virkaði mjög lítið síðan gaf hann mér tvisar aðra tegund af augnsmyrsli sem hafði áhrif meðan ég notaði það en síðan varð allt eins og áður. Hvað á ég að gera?

Svar:
Sæll.

Slím í augnkrókum getur átt sér ýmsar orsakir. Yfirleitt er um að ræða úrgangsefni fruma eða baktería á hvörmunum og getur slíkt aukist við ýmiss konar áreiti. Í raun má segja að áreiti og erting séu þar einskonar lykilorð og margt er það í augunum sem getur valdið slíku. Til viðbótar við bakteríur geta frjókorn t.d. valdið ertingu, s.s. í ofnæmi, en einnig getur nudd með fingri valdið aukinni slímmyndun í gegnum ertingu, ýmiskonar efni (dæmi: klór í sundlaugum, salt í svita) o.fl. o.fl. Stírur í augunum eru skilgreindar í orðabók Menningarsjóðs sem 1. Stirðleiki í augum (augnalokum) nývaknaðs manns. Sjálfsagt er notkun orðsins algengari sem: 2. óhreinindi sem safnast (að næturlagi) í augnakróka. Stírur eru yfirleitt hvítleitar eða hálfglærar að lit. Ef þær eru grænar er hugsanlega um bakteríusýkingu að ræða í augum viðkomandi. Ef um er að ræða stírur sem mynda hálfgerða strengi þegar þær eru teygðar út úr augunum (vonandi að lesandinn sé ekki að neyta matar einmitt núna), þá beinast grunsemdir að ofnæmi. Algengasta orsökin fyrir stírunum er hins vegar gamla góða hvarmabólgan. Þar verða stírurnar til sem aukaafurð bólgunnar í hvörmunum og safnast fyrir í augnkrókunum. Önnur einkenni hvarmabólgu eru: roði, sviði og þroti í augnhvörmum.  Líkt og áður hefur komið fram á doktor.is er besta ráðið við hvarmabólgu einfaldlega heitir bakstrar með hreinum þvottapoka og hvarmaþvottur að þeim loknum. Ef þetta er framkvæmt fyrir svefninn ætti stórlega að draga úr stírumyndun hins nývaknaða manns að næturlagi. Einu má svo ekki gleyma. Það er hið stórskemmtilega fyrirbrigði: ,,mucus fishing syndrome“, sem útleggja mætti á íslensku: slímveiðidella. Þessi sjúkdómur var ekki uppgötvaður fyrr en á síðasta áratug síðustu aldar og eru einkenni hans helst þau að fólk veiðir í tíma og ótíma slím og stírur úr augnkrókunum, eins konar kækur. Við að nudda augnkrókana með fingrunum á þennan hátt eykst slím/stírumyndunin og upphefst þá vítahringur. Sem sagt: Slímveiðidella.
 
Prófaðu þvottapokann, hann svíkur ekki.
 
Bestu kveðjur,
 
Jóhannes Kári.