Slím í hálsi

Heil og sæl.
Þannig er málum háttað að allan fyrripart dagsins og strax eftir að ég hef drukkið eitthvað t.d. vatn, þá byrja ég að kúgast og þarf að hósta upp miklu og þykku mjög seigu slími. Þetta gerist bara nokkrum sekúndum eftir að ég hef drukkið og kemur aftur og aftur næstu mínúturnar. Slímið er gagnsætt og stundum hvítt. Þetta hefur verið að plaga mig í u.þ.b. eitt ár. Ég tek engin lyf svo ekki eru þetta aukaverkanir vegna lyfja. Ég er annars hraustur, fékk gott út úr asthmaprófi og ekkert mér vitandi að hjartanu. Blóðþrýstingur að meðaltali frá áramótum 116 / 81 og púls 83
Með kveðju

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Það er erfitt að segja hvað þetta getur verið en mér dettur í  hug að þessi einkenni geti tengst bakflæði eða magabólgum. Ég mundi ráðleggja þér að panta þér tíma hjá heimilislækni eða meltingarsérfræðingi og fá úr því skorið hvort það geti verið skýringin. Ef ekki þá gæti háls, nef og eyrnalæknir kannski hjálpað þér.

Gangi þér vel