Slitbreytingar í baki?

Spurning:
Góðan dag. Ég er með fyrirspurn um eitthvað sem kallast slitbreytingar í baki. Hvað er það og hvernig virkar það? Hvað er til ráða og hvernig kemur þetta fram? Mér skilst á lækni að þetta sé við hrygg og niður í mjóbak. Af hverju kemur þetta? Er þetta vinnutengt eða getur þetta verið út frá gigt?

Svar:
Sæll,
Þegar talað er um slitbreytingar í baki er oftast átt við slitgigt. Slit hefur þá myndast í brjóskinu á liðflötum smáliðanna sem tengja hryggjarbolina saman. Brjóskið þynnist sem gerir það að verkum að hreyfingar stirðna og liðbólgur og verkir geta fylgt í kjölfarið.  Einkennin eru mest áberandi þegar viðkomandi einstaklingur ætlar að hefja hreyfingar eftir kyrrstöðu, svo sem fyrst á morgnana eftir rúmlegu eða þegar staðið er uppúr stól. Hryggurinn liðkast og óþægindin minnka þegar verið er á hreyfingu yfir daginn. Liðirnir smyrjast og hitna við hreyfinguna sem á sér stað. Orsakir geta m.a. verið erfðir, ofþyngd og/eða einhæft langvarandi álag. Álagið á hryggjarliðina getur flýtt fyrir slitgigtinni, hvort heldur sem um mikla erfiðisvinnu eða langvarandi kyrrsetuvinnu er að ræða. Ef læknir er búinn að sjúkdómsgreina þig og etv. gefa þér ráð varðandi verkja-eða bólgueyðandi lyf væri heppilegt að þú fengir fræðslu og ráðleggingar hjá sjúkraþjálfara varðandi líkamsbeitingu og líkamsþjálfun.  Gangi þér vel. 

Erna Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfun Styrk,
Stangarhyl 7,
110 Reykjavík