Sólarferð á meðgöngu, hvað ber að varast?

Spurning:

Sæl.

Ég er komin 11 vikur á leið og er á leiðinni á sólarströnd, er eitthvað sem ég þarf að varast sérstaklega eða gera áður en ég fer? Ég hef heyrt að konur hafi misst fóstur eftir að hafa verið mikið í sjónum, er mér óhætt að vera í sjónum og í sundlauginni eða ætti ég að sleppa því?

Einnig vildi ég spyrja varðandi ofnæmislyf, ég er nefnilega með frjókornaofnæmi og vildi vita hvort mér væri óhætt að taka Lóritín ofnæmistöflur og nef- og augnsdropa?

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Hafðu ekki áhyggjur af að missa fóstur vegna sjóbaða, þau skaða ekki fóstrið. Hins vegar getur mikill hiti haft slæm áhrif svo þú skalt varast að ofhitna, vera í ljósum fötum, drekka mikið vatn og kæla þig í sjó/sundlaug með reglulegu millibili. Varastu einnig illa matreiddan mat og osta og þvoðu alla ávexti vel áður en þú neytir þeirra.

Hvað varðar ofnæmislyfin er ekki talið ráðlegt að nota andhistamínlyf á meðgöngu. Ef þú ert með slæmt ofnæmi ættir þú að ræða við lækni um hvaða lyf þú megir taka í staðinn.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir