Sonur minn er afbrýðisamur

Spurning:

Ég er þriggja barna gift móðir og elsti strákurinn minn er 7 ára. Hann hefur alla tíð þurft rosalega mikla athygli, og ég hef reynt að veita honum hana eins og ég get, en hann virðist aldrei fá nóg af henni, sama hvað er gert. Hann lætur yngri systkini sín tvö aldrei í friði, fer mjög sjaldan í það hlutverk að vera eldri bróðir þeirra, heldur fer frekar niður á þeirra plan i hegðun – þau eru 5 ára stúlka og 2 ára drengur. Getur þú gefið mér einhver ráð?

Es. Ég er ekki gift föður þeirra tveggja elstu og faðir hans hefur ekkert samband við þau, hefur verið voða lítið síðan við skildum, þ.e.a.s. þegar sá elsti var 2 ára. Með fyrirfram þökk.

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Byrjum á því að líta aðeins á niðurlag bréfs þíns. Þar nefnir þú að þú sért gift föður yngsta barnsins þíns sem er drengur, en þú minnist ekkert á hvernig háttað er sambandi mannsins þíns og elsta stráksins þíns sem þú ert að leita ráða út af.

Nú reynast slík sambönd vera mjög breytileg hjá fólki. Hjá sumum eru menn stjúpbörnum sínum sem feður á sameiginlegu heimili, hvort sem börnin hafa samband við blóðföður þar fyrir utan eða ekki. Hjá öðrum sinna heimilisfeður aðeins þeirra eigin börnum, en ekki stjúpbörnunum neitt sérstaklega þótt þau hafi heimilisfestu hjá þeim. Nú svo er eins og allir vita stundum slæmt samband milli stjúpfeðra og stjúpbarna þeirra. Fyrst þú nefnir það ekki sérstaklega að samband þeirra sé mikið og náið eða lítið og mjög erfitt, get ég mér til um að e.t.v. einkennist það af því sem við getum kallað kurteislegt afskiptaleysi eða friðsæl lágmarks afskipti. Getur verið að elsti strákurinn þinn hafi hvorki nálægðina við blóðföður sinn, né sérstakt ástríki eða aðra nánd við hinn „starfandi” föður? Mörgum konum finnst að börnin þeirra séu tilbúin til að mynda slíkt samband við stjúpfeður og þrái það jafnvel mjög. Börnin bíði oft í ofvæni eftir því að stjúpfaðirinn taki skrefið sem þarf, og að þau gefi jafnvel ítrekað upp fyrir hinn fullorðna til að létta honum markaskorið, ef nota má slíka líkingu.

Ef þetta er reyndin hjá ykkur, hygg ég að þú verðir að byrja á bónda þínum og fá hann í lið með þér. Þykir honum vænt um elsta son þinn? Ver hann stundum hluta af frítíma sínum með honum? Fer hann með strákinn í sund eða á völlinn? Leikur hann við hann? Tekur hann strák á hné sér, spjallar við hann eða huggar þegar með þarf? Þvær hann honum, baðar og kemur hann honum í rúmið? Les maðurinn þinn fyrir elsta son þinn og kyssir góða nótt? Kæmi til greina að sonur þinn kallaði hann pabba?

Ef þér reynist erfitt að fá þá til að ná saman án þess að vera alltaf í hlutverki milligöngumannsins, athugaðu þá hvort maðurinn þinn væri til í að koma með þér til fjölskylduráðgjafa sem gæti aðstoðað ykkur nánar með málið og útfærsluna á því.

Ef strákurinn er óvenjulega fyrirferðarmikill og kröfuharður á athygli og maðurinn þinn e.t.v. þreyttur á honum og kannski ekki alveg tilbúinn í þetta með þér, þá hjálpar það þér vonandi ef þú getur leitt honum fyrir sjónir hvað það er til mikils að vinna fyrir ykkur sem fjölskyldu. Þið getið verið viss um að ef málið liggur með þessum hætti og þið náið þeirri breytingu sem hér er reifuð, þá mun hegðun sonar þíns batna mikið og vellíðan hans aukast til muna, sem svo aftur auðveldar manninum þínum að elska hann. Þið munið líklega einnig sjá minna af smábarnalegri hegðun hans. Hins vegar finnst mér spurning hvort 7 ára gamalt barn hagi sér endilega sem stóri bróðir fyrir 5 ára systur sína.

Reyndu jafnframt að stýra þeirri athygli sem þú veitir syni þínum með því að gefa honum ákveðinn tíma alltaf öðru hvoru þannig að hann hafi þá athygli þín algjörlega óskipta. Ég veit að það er ekki auðvelt með tvö önnur yngi börn. En það nægja alveg örfáar mínútur í senn, og þess vegna stundum bara ein eða tvær. Hafðu þessar lotur þó eins margar og þú getur. Það sem er þó mikilvægast í þessu er, að þú gefir honum gaum þegar hann er góður og til friðs, en ekki að þú sinnir honum til að kaupa þér frið. Vertu fyrri til og sýndu honum áhuga á því sem hann er að fást við, fáðu hann til að „vinna” með þér og „hjálpa” þér við það sem þú ert að gera, spjallaðu við hann og hrósaðu honum óspart strax fyrir vikið. Ef þú nærð þessum takti, þá mun það gera ykkur gott.

Nú til viðbótar er svo þetta sem þú þekkir örugglega, með að hann þurfi ekki alltaf að lúffa fyrir yngri systkinum af því að hann er stóri bróðir. Reyndu að draga úr því, og jafnvel þá á hinn veginn að veita honum eitthvað aukreitis af því að hann er stóri bróðir, sérstaklega þegar vel gengur og hann hefur sýnt systkinum sínum höfðingskap.

Þið hjónin
þurfið þó að búa ykkur undir það að sonur þinn mun mjög líklega reyna í ykkur þolrifin með ýmsu móti svona fyrst í stað, á meðan hann er að fullvissa sig um að breytingin sé í alvöru og á meðan þið eruð að ná trausti hans. Og þá megið þið alls ekki klikka og gefast upp. Einblínið á markmiðið og reynið að byggja upp leiðina að því og hlúa að henni á alla lund.

Gangi ykkur vel með þetta.
Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur