Sonur minn fékk rör í eyrun

Spurning:

Komdu sæl Dagný.

Þannig er mál með vexti að 9 mánaða gamall sonur minn fékk rör í eyrun í janúar síðastliðnum. Strax viku eftir aðgerðina fékk hann sýkingu í eyrun og er þetta alltaf viðloðandi hjá honum. Er þetta eðlilegt og eru rörin ekki í neinni hættu? Ég hélt að ég yrði laus við þetta eyrnavesen eftir að rörin kæmu.

Takk fyrir.

Svar:

Komdu sæl.

Ósköp eru að vita hvað á lítinn mann er lagt. Það kemur fyrir að rörin ná ekki að tæma vökvann úr eyranu og eins geta þau stíflast. Þau geta líka dottið úr. Þú ættir að láta lækninn sem setti rörin líta á stráksa og meðhöndla hann. Yfirleitt vaxa börn upp úr þessu eyrnaveseni um 3-5 ára aldurinn en fram að þeim tíma er um að gera að reyna að halda þeim frá sýkingum eins og hægt er og forðast reyk og óhreint loft nálægt þeim.

Kær kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir