Sprautar sig með Prednisóloni?

Spurning:
Komið sæl. Ég er 30 ára kona og ég á bróðir sem er sprautufíkill – sprautar sig yfirleitt með rítalini en núna með steralyfinu Prednisólón. Hvaða áhrif hefur það á hann – hvað getur það gert honum? Hann sprautar sig líka oft með róandi lyfjum. Vil bara fá að vita hvaða vímu hann fær útur þessu lyfjum.

Svar:
Það hljómar frekar langsótt að sprautufíkill sé að sprauta sig með prednisólóni. Eins og þú segir réttilega er prednisólón steralyf. Ástæðan fyrir notkun lyfsins er bæling þess á ónæmiskerfið. Það er því notað við ýmiss konar bólgusjúkdómum, svo sem gigt, astma o.s.frv. Lyfið getur einkum í stórum skömmtum valdið tímabundinni örvun og vellíðan. Aukaverkanir af
lyfinu í stórum skömmtum eru hins vegar margar og oft á tíðum alvarlegar. Það að fíkill sækir í að sprauta sig með lyfjum og efnum frekar en taka þau inn er að verkuninin kemur mun fyrr og verður yfirleitt miklu öflugri
þannig.
Ég læt fylgja hér með texta úr Sérlyfjaskrá þar sem hugsanlegar aukaverkanir prednisólóns eru taldar upp. Það skal þó tekið fram aftur að aukaverkanir af litlum skömmtum eru vægar:

Hætta á aukaverkunum af prednisólóni er lítil við skammtíma meðferð. Þó ætti að hafa í huga hættu á magasárum (oft af völdum streitu) sem geta verið einkennalaus vegna sterameðferðarinnar og einnig fyrir minnkun á sykurþoli og mótstöðu gegn sýkingum.
Húð: Rautt húðslit, rýrnun, depilblæðingar, flekkblæðingar, sterabólur, sár
eru lengur að gróa, munnþroti, ofnæmisviðbrögð í sjaldgæfum tilfellum t.d.
útbrot.
Stoðkerfi, stoðvefur, bein: Vöðvarýrnun, beinþynning, smitlaust beindrep
(framan á upphandleggsbeini og lærlegg).
Augu: Gláka, starblinda.
Geðræn vandamál: Þunglyndi, pirringur, vellíðan, aukin matarlyst og kraftur,
falskt heilaæxli, virkjun á dulinni flogaveiki.
Meltingarfæri
: Magasár, blæðing í meltingarfærum, brisbólga.
Elektrólýtar, efnaskipti og innkirtlar: Tunglandlit, fitusöfnun á búk,
minnkað sykurþol, sykursýki, natríum uppsöfnun með bjúgmyndun, aukinn kalíum
útskilnaður (hjartsláttartruflanir), minnkuð virkni eða rýrnun á
nýrnahettuberki, seinkaður vöxtur hjá börnum, óeðlileg seyting kynhormóna
(tíðateppa, aukinn hárvöxtur, getuleysi).
Hjarta- og æðakerfi: Háþrýstingur, aukin hætta á æðakölkun og segamyndun í
æðum, æðabólga (einnig sem fráhvarfseinkenni eftir langtíma meðferð).
Blóð, eitlar og ónæmiskerfi: Væg hvítfrumnafjölgun, eitilfrumnafæð,
eósínfíklaþurrð, blóðkornamergð, skert ónæmiskerfi, duldar sýkingar.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur