Spurning varðandi meðgönguna?

Spurning:
Mig langaði aðeins að spyrja þig varðandi mína meðgöngu, málið er að ég er komin rúmar 18vikur eftir ljósmóður, samkv. minu ætti þetta að vera 19-20, ég fer til læknis í byrjun sept, og þa fór ég í snemmsónar, og þá var ég gengin rúmar 11vikur, En það sem málið er í rauninni er að ég er svo rosalega sver og með mikla og stóra kúlu, hef verið það síðan ég fór til læknis, er einhver möguleiki að ég sé með tvíbura og það hafi bara sést eitt.( ég væri mikið til í það..). Ég var komin í rúmar 11-13 vikur og þá þurfti ég miklu stærri föt (var yfirleitt í stærð 12 og keypti mér buxur í 16-20) er gronn.. og á 14 viku fór ég að kaupa mér óléttuföt og var mikil þörf á, (og þetta er mitt fyrsta barn) Það er mjög mikið um tvíbura í ættinni minni, afi minn var tvíburi, amma átti tvenna tvíbura og annar þeirra á tvíbura, (þetta nær alveg til lang afa þetta tvíburaflæði) Ég er búin að fara í tvær mæðraskoðanir, í fyrstu heyrði/fann hún ekki hjartsláttinn, en í næstu nr. 2 þá var mikill og hraður hjartsláttur,

Með fyrirfram þökk fyrir svarið og frábæra heimasíðu ein spennt…..

Svar:
Venjulega sést það í sónar ef um tvíbura er að ræða, en það getur auðvitað brugðist (eins og allt sem mannlegt er). Hjá litlum og grönnum konum sést kúlan yfirleitt fyrr og ekkert óeðlilegt við það að þurfa að skipta upp stærð við 12 vikur. Þá fer jú að sjá á flestum konum. Stundum getur séð meira á konum vegna loftsöfnunar í þörmum eða hægðatregðu. Einnig fer það töluvert eftir styrk magavöðvanna hversu vel þeir halda leginu í skorðum og lögun mjaðmagrindarinnar getur líka haft áhrif á þetta. Um 19 vikna meðgöngu stendur konum til boða sónarskoðun og ef þú þiggur hana sést væntanlega hvort þú gengur með tvíbura.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir