Spurningar til kvensjúkdómalæknis

Spurning:
Ég er með nokkrar spurningar sem mig langar að leggja fyrir kvensjúkdómalækni. Ég var u.þ.b. 12 ára þegar ég hafði fyrst blæðingar en svo liðu margir mánuðir. Læknirinn minn lét mig hafa einhverjar töflur sem komu smá reglu á blæðingarnar þegar ég var u.þ.b. 15 ára og svo pilluna þegar ég var 16 ára. Þá talaði læknirinn um að skjaldkirtilshormón væri lágt (???) en ég var of ung til að fatta þetta allt saman. Á meðan ég tók pilluna voru blæðingarnar reglulegar. 23 ára hætti ég á pillunni, blæðingar urðu með mjög löngu millibili en þremur árum seinna varð ég ófrísk, hjálparlaust. Eftir fæðinguna lét ég setja upp lykkjuna. Þann tíma voru blæðingarnar u.þ.b. annan hvern mánuð og mjög miklar. Nú er eitt og hálft ár síðan ég lét fjarlægja lykkjuna því okkur langar í annað barn en nú líða 3-4 mánuðir milli blæðinga. Ég fór í hormónapróf sl. sumar og það kom eðlilega út (reyndar byrjaði ég á blæðingum 5 dögum eftir blóðprufuna, það hefur kannski ruglað eitthvað?) Ég er þrítug og búin að vera í sambúð í 11 ár. Spurningar mínar eru eftirfarandi: 

1. Er allt í lagi að hafa svona sjaldan blæðingar? Hefur það einhver áhrif á eggjastokkana, legið eða á eitthvað annað?
2. Hvaða skýringar geta verið á styttri tíma milli blæðinga þegar ég var með lykkjuna og þessu mikla magni?  
3. Eru blöðrur á eggjastokkum ættgengar?
4. Geta verið tengsl milli hormónarugls og hægðatregðu? 
5. Nú langar okkur í annað barn, hvað heldur þú að væri besta hjálpin fyrir mig?  

Ég vona að ég fái einhver svör við spurningum mínum.
Bestu kveðjur með fyrirfram þökk.

Svar:
Þetta geta varla talist spurningar, heldur beiðni um heilan fyrirlestur.

Í stuttu máli er best að þú sért undir eftirliti sérfræðings sem leiðir ykkur gegnum þetta ferli. Af sögu þinni er ekkert sem bendir til alvarlegs vandamáls sem ekki er hægt að bæta. En til þess að svara þér hef ég sett svörin inn við hverja spurningu hér að neðan.

1. Er allt í lagi að hafa svona sjaldan blæðingar? Hefur það einhver áhrif á eggjastokkana, legið eða á eitthvað annað? Það er í lagi, en getur þýtt truflun í hormónastarfsemi.
2. Hvaða skýringar geta verið á styttri tíma milli blæðinga þegar ég var með lykkjuna og þessu mikla magni?  sjá l 
3. Eru blöðrur á eggjastokkum ættgengar? Getur verið það.
4. Geta verið tengsl milli hormónarugls og hægðatregðu? Getur verið það. 
5. Nú langar okkur í annað barn, hvað heldur þú að væri besta hjálpin fyrir mig? Að hitta einn sérfræðing sem fylgir ykkur sbr. bréfið til ykkar.

Gangi ykkur vel.

Arnar Hauksson dr med