Spurningar um frjósemi

Spurning:
Ég var búin að reyna að verða ófrísk í eitt og hálft ár þegar það loksins gekk. Ég fór í kviðarholsspeglun og varð ófrísk tæpum mánuði eftir það. Mér var sagt að allt hefði verið eðlilegt í þessari skoðun en oft þyrfti ekki meira til og sú var raunin. Meðgangan gekk mjög vel fyrstu þrjá mánuðina en eftir 14 vikur missti ég fóstur og var þá sagt að engin sérstök ástæða væri sjáanleg fyrir því að svo fór. Ég fór þá í skröpun og eftir það sagði læknirinn mér að bíða 1-2 blæðingar með að reyna aftur.

Ég fór svo til kvensjúkdómalæknis míns rúmum mánuði eftir aðgerðina til að athuga hvort allt væri í lagi sem hann sagði vera. Nú eru liðnir 6 mánuðir síðan og ekkert gengur í því að verða ófrísk aftur.

Nú hef ég nokkrar spurningar:
1. Getur verið að það að ég varð ófrísk svo stuttu eftir kviðarholsspeglun hafi haft áhrif á það ég skyldi missa fóstur?
2. Geta komið fram einhverjar „stíflur“ í eggjastokkum eftir útskröpun vegna fósturláts?
3. Áður en ég varð ófrísk var tíðahringurinn hjá mér 35 dagar, og ég byrjaði alltaf á blæðingum á sama tíma dagsins (mjög reglulegt). Eftir fósturlát hefur tíðahringurinn verið frá 28 dögum upp í 32? Er það eðlilegt að tíðahringurinn hafi breyst við þetta?
4. Við höfum verið að tala um að maðurinn minn fari í sæðisrannsókn. Fer það fram í gegnum kvensjúkdómalækninn minn eða á að panta tíma í rannsókn beint og hvar þá?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl og blessuð.

Það skiptast á skin og skúrir.
Svörin eru þessi:
1) Það á ekki að hafa nein áhrif.
2) Það eiga ekki að koma neinar stíflur eftir aðgerðina né eftir svo stuttan tíma.
3) Það er mjög algengt og í sjálfu sér betra en þá færist líka dagur sem egglos er fram um 4-7 daga miðað við fyrra ástand (þ.e. dagar sem þú átt að reyna á).
4) Einfaldast er að gera þetta gegnum sérfræðinginn ef svo ótrúlega vill til að ekki var búið að gá að því áður. Einnig getur heislugæslulæknir gert það fyrir þig. Vonandi verður þú svo fljótt þunguð aftur.

Bestu óskir,
Arnar Hauksson dr. med.