Stækkun á blöðruhálskirtli?

Spurning:
Komið þið sæl!
Fór í speglun fyrir rúmum mánuði hjá lækni sem hefur stundað mig undanfarin ár og ég hef farið í nokkrar speglanir hjá honum.
Hafði fyrr farið í blóðrannsókn sem kom vel út á öllum sviðum og leist lækninum vel á. En þar sem undanfarna mánuði hef ég fundið fyrir þrýstingi og þar af leiðandi erfiðari þvaglátum og er mun lengur að tæma blöðruna, ákvað læknirinn að senda mig í fyrrgreinda speglun. Hann sagði eftir hana að mögulega þyrfti að skera og minnka blöðruhálskirtilinn og ég ætti svo að tala við hann eftir u.þ.b. tvo mánuði, því enn meiri stækkun hefði orðið á honum, en góðkynja.
Ég hef undanfarin ár tekið bæði Fingol og Omnic og sá hjá ykkur á doktor.is að algengt væri að nota lyfið Detrusitol Retard við þessum kvilla. Er það að einhverju leyti áhrifameira  en þessi tvö sem ég hef notað?
Ef til skurðaðgerðar kemur, hverjar eru afleiðingar hennar, t.d. er dvöl á spítala í styttri eða lengri tíma? Er einhvers konar endurhæfing á eftir og hver getur áhættan verið við uppskurðinn?

Bestu kveðjur.

Svar:
Detrusitol Retard er aðallega notað ef um er að ræða tíð og bráð þvaglát, jafnvel þvagleka, en ekki ef um þvagtregðu er að ræða. Verkun þess er allt önnur en hinna lyfjanna. Sumir fara í sérstaka blöðruþrýstingsrannsókn áður en til aðgerðar kemur til að kanna hvort um er að ræða stíflumynd í neðri þvagfærum og þá vegna blöðruhálskirtils. Ef stífla er ekki til staðar, þá er ólíklegt að aðgerð hjálpi eins vel og vonir stóðu til. Flestir liggja inni í 2-4 daga vegna svona aðgerða sem gerðar eru um þvagrás. Fylgikvillar eru fátíðir, en < 2-3 % e-n þvagleka á eftir, blóðmiga getur komið fyrir fyrstu vikurnar sem og þvagfærasýking en flestir eru orðnir góðir eftir 4-8 vikur  frá aðgerð. Öfugt sáðlát (þ.e. sæðið sprautast inn í blöðru við sáðlát) verður yfirleitt eftir slíkar aðgerðir, en stinning eða ris á að vera óbreytt. Dánartíðni er < 1 %. Engin endurhæfing er nauðsynleg.

Bestu kveðjur, Valur Þór Marteinsson, þvagfæraskurðlæknir