Stanslausar blæðingar?

Spurning:
Ég er búin að eiga við blæðingavandamál síðastliðin 3 ár og hef meðal annars farið í útskröpun og tekið hormóna á því tímabili. Ég á eitt barn, hef ekki verið þunguð í önnur skipti og hef notað getnaðarvarnir (aðalega P-pilluna) af og til síðastliðin 12 ár og þá í ca. tvö ár í einu. Vandamálið kom upp þegar ég var nýflutt hingað út. Þá tók ég P-pilluna og hafði gert í ca. tvö ár. Ég byrjaði blæðingar á réttum tíma, en þegar að þær stoppuðu ekki á venjulegum tíma kendi ég um stressi í sambandi við fluttninga. Ég hélt áfram að taka pilluna en alltaf hélt áfram að blæða.

Eftir 3 mánaða stöðugar blæðingar fór ég loksins til heimilislæknis sem lét mig auka p-pilluskammtin í 3 töflur á dag í einhverja daga. Þegar það stoppaði ekki blæðingarnar fékk ég aðrar töflur (Cyklokapron 500 mg) sem ég tók í einhverja daga, tvær töflur 4x á dag. Blæðingarnar héldu áfram og læknirinn sendi mig þá til kvennsjúkdómalæknis sem setti mig í sónar og sagði mikla blóðsöfnun vera til staðar og framkvæmdi útskröpun. Þegar blæðingar héldu áfram var ég látin taka Cyklopron aftur og þá loksins hætti að blæða. Allt virtist eðlilegt í 3 vikur eða þar til næstu blæðingar hófust og sama sagan hófst. Ég þrjóskaðist eitthvað við en fór svo aftur til heimilislæknisinsins. Hann vísaði aftur á kvennsjúkdómalækni. Þá var ég sett á hormóna, Perlufex 5mg, sem ég byrjaði að taka strax og tók í 10 daga, tvær töflur á dag.

Þegar ég hafði tekið töflur í tvo daga stoppuðu blæðinar og ég hélt áfram að taka þessa hormóna í 6 mánuðui (frá 15-24 degi í tíðarhringnum). Þetta stytti blæðingatímabilið í 12 daga blæðingar hverju sinni. Eftir að 6 mánaðatímabilinu lauk og ég hætti að taka hormónana byrjaði vandamálið aftur, en þó ekki eins slæmt. Eftir þetta hafði ég blæðingar í ca 20 daga og frí í 10-15 daga.. Þá mælti læknirninn með hormónalykkjunni. Ég var ekkert sérstaklega hrifin og beið með að láta setja hana upp. Þegar allt var við það sama mánuð eftir mánuð fékk ég lykkjuna setta upp eftir að hafa lesið mér til um hana. Lykkjan var sett upp í janúar s.l. Síðan hafa blæðingarnar verið í ca. 30 daga og 10 dagar frí. Ég fór í tékk hjá kvennsúkdómalækninum fyrir tveimur mánuðum og sýndi honum bókhaldið yfir blæðingarnar mínar. Hann setti mig í sónar og sagði að allt liti vel út, lykkjan á sínum stað og engar bólgur eða nokkuð annað sjáanlegt. Hann sagði að við skildum gefa þessu tvo mánuði og ef þetta lagaðist ekki á því tímabili myndum við prófa aðra tegund af hormónum, í von um að það myndi hafa langvarandi áhrif.

Núna er svo komið að þessum tímapunkti og mig langar mikið til að heyra annað álit. Ég er næstum viss um að þetta er ekki eitthvað sem getur talist eðlilegt fyrir konu á mínum aldrei. Ég hef einhverra hluta vegna óhug varðandi þetta hormónaát og vildi gjarnan sleppa við það. Læknirinn minn mælti með annari þungum, sagði bara tíma komin á mig, en það er ekki eitthvað sem ég og maðurinn minn höfum í huga.

Svar:
Þessi lýsing er það mögnuð að allt bendir til þess að orsökin sé ekki tilfalandi, heldur frekar einhver líffræðileg breytig í þínu legi. Annað hvort hnútamyndanir, staðbundinn storkuskortur eða annað í þá átt. Þetta gæti aftur þýtt örðugleika fyrir þig að halda þungun, þó svo þú gætir orðið þunguð. Þú hefur vonandi farið í krabbameinsleitarskoðun þar ytra svona til öryggis, því mér heyrist að læknir þinn hafi gert vel-flest annað. Ef ekkert af þessu á við þig, eru ekki mörg ráð eftir og hið eina endanlega væri aðgerð. Það kemur hins vegar ekki til greina ef ykkur hjónn langar aðeignast fleiri börn. Það er hægt að útfæra þær lyfjameðferðir sem þú nú þegar hefur fengið á ýmsan máta, en slíkt er ekki á valdi neins nema þess sem hefur skoðað þig áður, svo þinn kvensjúkdómalænir í Dk er best til þess fallinn. Mér heyrist að hann sé að búa þig undir einhverjar slíkar upplýsingar.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr med.