Stífluð í nefi á meðgöngu?

Spurning:
Kæri Doktor.is
Mig langaði til að leita ráða varðandi langvarandi kvef á meðgöngu. Ég er gengin 30 vikur. Ég hef verið meira og minna kvefuð frá því í haust, hef nú hóstað upp ákaflega fagurgrænu slími í 3 vikur og finn að ennis- og nefholur eru fullar af því saman. Ég nota nefsprey af og til svo ég fái ekki of mikla köfnunartilfinningu en veit að ekki er mælt með því. Mér var sagt í apótekinu að ég mætti ekki einu sinni nota Sólhatt en nú er ég að verða ansi hreint vansvefta og leið á þessu ástandi og vona því að þið getið hjálpað. Með fyrirfram þökkum ein stibblud!

Svar:
Mér sýnist nú á lýsingunni að ástandið sé komið út fyrir hinar eðlilegu meðgöngunefstíflur og að þú gætir verið komin með sýkingu í ennisholur. Þá dugar ekki lengur neitt nefsprey og þú gætir þurft að fara á sýklalyf. Talaðu við lækninn þinn og berðu þetta undir hann – það er ómögulegt að vera svona.
Húsráðið við svona nefstíflum eru að láta sjóðandi heitt vatn renna í vask, beygja sig yfir hann með handklæði yfir sér og anda að sér gufunni í svona 5 mínútur. Snýta sér svo vel á eftir. Þetta gæti þurft að gera nokkrum sinnum á dag og þá sérstaklega fyrir nóttina. Svo er ágætt að hafa aðeins hærra undir höfðinu á nóttinni til að ekki setjist eins mikill bjúgur í nefið.

Vona að rætist úr þessu hjá þér.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir