Stingir eftir fósturlát?

Spurning:
Sæll Arnar
Mig langar að segja þér að ég misti fóstur eftir aðeins níu-tíu vikur og fór í útsköfun,en það er liðinn einn mánuður síðan og vandamálið er það að ég fæ alltaf sting í eggjastokkana þegar ég hef samfarir, en ég byrjaði að hafa samfarir tæpum þrem vikum eftir aðgerðina. Ég er búin að fara til læknis á svæðinu (ekki kvensjúkdómalæknis)og það var tekin prufa og það var ekki sýking, en  það kemur ennþá útferð.
Takk fyrir

Svar:
Það var leitt að þú skildir missa fóstur, en því miður eru náttúruöflin svona og ein af hverjum fjórum þunguðum konum missir fóstur.  Það er ekki algengt að hafa blóðlit og hreinsun lengur en 7 – 10 daga eftir fósturlát. Það er ólíklegt að um sýkingu sé að ræða og ræktunin styður það.  Ef útferðin er ekki blóðlituð eða slímug getur hún verið eðlileg.  Þetta er örugglega ekkert hættulegt og getur átt sér einfaldar skýringar en ef þetta heldur áfram eftir næstu tíðir væri ágætt ef þú átt tök á því að komast í skoðun aftur hjá lækni.
Gangi þér vel,

Kveðja
Arnar Hauksson dr med