Svakaleg fráhvarfseinkenni – eðlilegt?

Spurning:
Mig langar að vita eitt. Ég var á Cipralex og svo hætti ég skyndilega vegna þess að ég varð uppiskroppa með lyf. Var að koma erlendis frá og þurfti að keyra morguninn eftir austur á land. Þannig að ég klikkaði að taka lyfin enda búin. Ég er líka á Tegretol en því reddaði ég fyrir austan, en ég fékk ekki Cipralexið þannig að ég ákvað að gefa bara skít í það. Nú spyr ég, hvað getur gerst ef þú bara hættir bingo? Ég fékk svona svakaleg fráhvarfseinkenni. Svitnaði, fékk hita og leið rosalega illa í hálfan mánuð. Þetta var eins og að vera trappa sig niður eins og eiturlyfjaneytendur verða þegar þeir eru að trappa sig niður. Er þetta virkilegt? Kv

Svar:

Escítalópram sem er virka efnið í Cipralex, er þunglyndislyf af svokölluðum SSRI (serótónín endurupptökuhemlar) flokki. Verkun þeirra felst í því að koma í veg fyrir að boðefnið serótónín hverfi úr taugamótum, og eykst magn þess þar með. Serótónín er nauðsynlegt í ákveðnum hluta taugakerfisins til að taugaboð, sem eru rafboð, berist áfram um taugina yfir taugamótin.
Fráhvarfseinkenni SSRI  lyfja eru talin stafa fyrst og fremst af því að þegar skyndilega er hætt að nota lyfið sem eykur magn serótóníns á taugamótum, verður tímabundinn skortur á serótóníni. Einnig er líklegt að næmi viðtaka serótóníns á taugamótunum hafi minnkað við notkun lyfins. Fráhvarfseinkennin eru því í raun einkenni sem stafa af skorti á serótóníni.
Því styttri tíma sem það tekur líkamann að losa sig við SSRI lyfið því meiri hætta er á þessum fráhvarfseinkennum. Paroxetín sem er virka efnið í Seroxat og Paroxat, er oftast talið verst hvað þetta varðar þar sem það skilst hratt úr líkamanum. Flúoxetín sem er virka efnið í Fontex, Prozac, Fluoxetin NM Pharma, Flúoxetín Delta, Seról og Tingus skilur hægast út og því síst líklegt til að valda fráhvarfseinkennum. Önnur lyf eru þarna á milli.
Fæstir finna fyrir verulegum fráhvarfseinkennum en samt er mælt með því að dregið sé úr skömmtum smám saman þegar meðferð með SSRI þunglyndislyfjum er hætt, á einni til tveimur vikum, til að minnka líkur á hugsanlegum fráhvarfseinkennum.
Almennt er ekki talin hætta af fráhvarfseinkennum nema lyfið hafi verið notað í a.m.k. tvo mánuði.
 
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur