Svart ský á auga

Fyrirspurn:

Góðan dag.
Ég var að vinna í fyrradag, vinn við tölvu og er líka svolítið á ferðinni innanhúss. Var nýlega sest og þá finnst mér vera svart ský fyrir efri hluta augans, þ.e. ef auganu er líkt við glugga þá var eins og svört rúllugardína væri dregin fyrir til tæplega hálfs niður, vona að þú skiljir mig. Er svolítið drungaleg í höfðinu en ekki upplifað þetta aftur. Þarf ég að hafa einhverjar áhyggjur eða á ég bara gleyma þessu?

Aldur:
48

Kyn:
Kvenmaður 

Sæl. 

Ekki kemur fram hvort ‘’rúllugardínan’’ sé enn til staðar eða ekki.  Ef þetta gerðist aðeins í öðru auganu þarf að skoða málið þegar í stað.  Ef ekki næst í augnlækni strax, þarf að hafa samband við augndeild Landspítala, þar sem læknir er á vakt allan sólarhringinn.  Þetta gæti verið meinleysislegt en útiloka þarf hluti eins og æðastíflu í auga og sjónhimnulos.

Gangi þér vel!

Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir