Svefnlyfið Halcion?

Spurning:
Mig langar að vita allt um svefnlyfið Halcion, hvar endar notkunin á því?

Svar:
Ég bendi á meðfylgjandi lesningu af heimasíðu Doktor.is. Þar er lýst verkun, aukaverkunum og hvers beri að varast við notkun lyfsins. Ég veit ekki hvað þú átt við með hvar notkun lyfsins endar.
 
 

Flokkur
Innihaldsefni
Framleiðandi

Svefnlyf
Tríazólam.
Pharmacia

Flokkunarnúmer: N 05

Lyfjaform: Töflur: 0,125 mg eða 0,25 mg.

Notkun: Lyfið er nær eingöngu notað sem svefnlyf fyrir þá sem eiga erfitt með að sofna. Það virkar mjög fljótlega eftir töku og verkar stutt samanborið við önnur skyld lyf. Þannig skilst helmingur lyfjaskammtsins út úr líkamanum á 2-3 klst. frá inntöku.

Skammtar: Venjulegur skammtur er 0,125-0,25 mg fyrir svefn. Aðrir skammtar eru stundum notaðir.

Aukaverkanir: Vegna þess hvað lyfið skilst hratt út úr líkamanum, telja sumir að það hafi minni slævandi áhrif daginn eftir töku en önnur sambærileg lyf, en hugsanlegt er að þessi hraði útskilnaður valdi því einnig að fólk haldi ekki eins lengi svefninum þegar líður að morgni. Aukaverkanir lyfsins eru mjög háðar skammtastærð og því er nauðsynlegt að nota jafnan eins lítinn skammt og unnt er. Algengar: Þreyta og sljóleiki, einkum í byrjun meðferðar og svefnleysi fyrstu daga eftir að meðferð er hætt. Sjaldgæfar: Ef stórir skammtar eru teknir getur fólk fundið fyrir svima, óstöðugleika og örðugleika við að stjórna hreyfingum. Þeir sem eru viðkvæmir, einkum eldra fólk getur orðið ruglað við notkun þessa lyfs, fengið ofskynjanir og minnisleysi.

Athugið: Notkun lyfsins hefur í för með sér ávanahættu, því skyldi aðeins nota það í stuttan tíma í senn. Halcion er þríhyrningsmerkt lyf, sem þýðir að notkun þess slævir viðbragðsflýti og eftirtekt. Akstur og önnur nákvæmnisvinna sem hefur í för með sér slysahættu er því varasöm meðan lyfið er notað. Þeir sem haldnir eru sjúkdómnum myasthenia gravis, sem er sjaldgæfur vöðvasjúkdómur, ættu aldrei að nota þetta lyf. Verkun lyfsins getur verið breytileg ef önnur lyf eru tekin samhliða. Því er nauðsynlegt að skýra lækninum frá öllum öðrum lyfjum sem menn nota. Notið ekki áfengi meðan á meðferð stendur.

Meðganga og brjóstagjöf: Ekki er nægilega mikið vitað um áhrif lyfsins á fóstur. Nauðsynlegt er að ráðfæra sig við lækni ef það er notað að einhverju ráði á meðgöngutíma. Ekki skyldi nota lyfið meðan barn er á brjósti, nema samkvæmt ákveðnum fyrirmælum læknis.

Samheitalyf: Triazolam, Tríon.

Afgreiðsla: 10 eða 30 töflur, þynnupakkað.
 

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur