Sveppasýking hjá fimm ára?

Spurning:
Komið sæl.

Ég á 5 ára stelpu sem er með stöðuga sveppasýkingu við kynfæri – og eflaust inni í þeim líka. Þetta veldur henni heilmiklum óþægindum og pirringi. Þar til hún varð 4 ára bjuggum við erlendis, þar sem hún var mjög oft lasin og fór á mjög marga pensilínkúra. Beinlínis var þar höfðað til samviskunnar ef við foreldrarnir mölduðum í mótinn. Þetta endaði með því að við hættum að fara til læknis og héldum henni bara heima ef hún fór svo mikið sem að hósta.
Allavega, hún hefur ekki farið á pensilín síðan við komum heim – enda snarhætti hún að verða lasin, en virðist hafa fengið þessa þrálátu sveppasýkingu sem ég hef áhyggjur af. Það sem ég geri við þessu er auðvitað að ég hugsa vel um almennt hreinlæti, ég læt hana drekka mjög mikið vatn, hún fær aldrei gos, ávaxtasafa og sælgætisneysla er í algjöru lágmarki. Auk þess opna ég ab-gerlahylki og gef henni eitt slíkt út í skeið af jógúrti á dag. Ég ber reglulega á hana ,,Daktacort“ krem, sem mér hefur verið ráðlagt í apótekum, en þetta er víst fótasveppakrem. Við fórum til læknis út af þessu erlendis og fengum ávísun á eitthvað svona krem þar líka.
Ég vil hér taka fram að ég hef því miður litla trú á því að fara með hana aftur til læknis út af þessu, því mér finnst því miður of oft brenna við að læknar vanti hugmyndir að heildrænum lækningaaðferðum sem virka til frambúðar. Nú hef ég ýmsar spurningar: Er þetta eitthvað gáfulegt sem ég er að gera? Er nokkuð í lagi að vera að vera með langtímanotkun á svona kremum á börn? Get ég gert eitthvað fleira/annað? Eru einhverjar líkur á því að hún losni við þessa sveppasýkingu? Hverjar eru líkurnar á því að svona sveppasýking breiðist út um líkamann? Ég verð innilega þakklát fyrir öll svör sem gætu gefið okkur bjartsýni eða opnað okkur nýjar hugmyndir, því að þetta er hreinlega óþolandi.
Kærar kveðjur,

Svar:
Komdu sæl

Grey litla skinnið, það hlýtur að vera einhver leið. Það sem ég vil ráðleggja þér eru engin vísindi heldur mín reynsla og margra annarra sem hafa glímt við þetta þráláta vandamál. Allt sem þú ert að gera er gott en það sem þú getur gert auk þess og ég vil fara yfir með þér er eftirfarandi:
Setja nærbuxurnar hennar á suðu í þvottavélinni þ.e. 90°c og lítið þvottaefni og helst Neutral eða allavega eitthvað mjög milt.  Notaðu einungis bláa lactacyd sápu á kynfæri hennar og þvoðu svæðið með lactacyd sápunni tvisvar í hverri sturtu og skolaðu vel á eftir með sturtuhausnum. Láttu hana bara fara í sturtu, ekki bað eða sund fyrr en hún hefur verið laus við þetta í einhvern tíma. Endilega leyfðu henni að vera berrassaðri t.d. þegar þið eruð tvær heima svo loft leiki um píkusvæðið, því raki er kjörsvæði sveppasýkingarinnar. Hættu að nota Dactacort kremið í bili og sjáðu aðeins til, ef þetta batnar ekki við þetta á nokkrum dögum, allt að viku þá mundi ég ráðleggja þér að tala beint við barnalækni og fá ráðleggingar eða tala við þær aftur í apótekinu og fá upplýsingar um það hvort það sé eitthvað annað krem sem geti hentað samhliða þessum ráðum.
Varðandi mataræðið vil ég eindregið mæla með að þú bætir inn ab mjólk á hverjum morgni.
 
Gangi ykkur vel!
 
Með góðri kveðju,

Jórunn Frímannsdóttir
Ritstjóri – hjúkrunarfræðingur
www.Doktor.is