Sveppasýkingar á kynfærum

Spurning:

Góðan dag!

Getur sveppasýking á kynfærum karla legið í láginni og án allra einkenna en samt náð að smita konuna?

Hvort er algengara að sveppasýking sé einkennalaus, en geti þó smitað, hjá konum eða körlum?

Ef inntaka sýklalyfja kallar fram einkenni sveppasýkingar á kynfærum kvenna, hversu fljótt geta þau einkenni komið fram?

Hver eru bestu ráðin við sveppasýkingum á kynfærum kvenna og karla?

Kveðja, X

Svar:

Um 25% kvenna sem hafa engin sjúkdómseinkenni hafa sveppasýkingu (Candida albicans). 12-15% karlmanna sem hafa samfarir við sýkta konu fá einkenni eins og kláða og útbrot við kynfæri, þó eru sveppasýkingar í leggöngum ekki flokkaðar sem kynsjúkdómur. Menn geta verið smitandi þó svo að lítil sem engin einkenni séu til staðar. Sveppasýking getur komið í kjölfar sýklalyfjameðferðar (sérstaklega tetracýklín) við öðrum sýkingum. Sýklalyfin breyta hlutfalli milli eðlilegu örveruflórunnar og annarrar með því að bæla niður vöxt baktería (það gerist fljótt) og eiga sveppasýkingarnar því auðveldara með að festa sig í sessi. Bakteríurnar sem voru fyrir sýklalyfjameðferð gera sveppasýkingum erfitt uppdráttar. Til að fyrirbyggja sveppasýkingu í leggöngum ber að forðast langvarandi og of mikinn raka á kynfærasvæðinu með því að klæðast nærbuxum með klofbót úr bómull og víðum/lausum buxum. Einnig að forðast að vera í blautum baðfötum eða íþróttafötum í langan tíma. Mikilvægt er að þvo þau eftir hvert skipti. Svipað á við um menn. Við fyrstu sýkingu ætti að leita læknis til að fá greiningu og meðferð. Ef önnur sýking kemur eftir fyrstu sýkingu er í lagi að fara og kaupa lausasölulyf í apótekinu ef um óyggjandi sveppasýkingu er að ræða. Lyf sem notuð eru í slíkum tilgangi eru t.d. Daktacort (miconazole) og Canesten
(clotrimazole). Ef sýking er þrálát verður að leita til læknis.
Það verður að fylgjast vel með sýkingum af völdum Candida albicans.
Endurteknar sýkingar sem koma strax í kjölfar meðferðar eða viðvarandi sveppasýking sem svarar ekki meðferð getur verið merki um að viðkomandi sé með HIV smit.

Með kveðju,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur