Sviði í lærvöðvum og þreyta í löppum

Góðan dag. Mig langar að forvitnast hvað veldur því að ef ég geng upp þó ekki sé nema örfáar tröppur eða hjóla upp litla brekku þá byrjar mig að svíða mjög í lærin. Í vinnunni hjá mér geng ég á bilinu 9000 til 13000 skref á dag og ég þarf oft á dag að fara upp 37 tröppur og það kemur fyrir að ég þarf að stoppa og jafna mig, yfirleitt jafnar þetta sig á nokkrum sekúndum en stundum á örlítið lengri tíma og nú er svo komið að ég treysti mér æ sjaldnar til að ganga upp tröppurnar og tek því lyftuna. Ég er búinn að leita víða að lausn við þessu og er búinn að eyða vel á annað hundrað þúsund í það, ég hef farið til æðaskurðlæknis, bæklunarlæknis, gigtarlækna og óteljandi heimilislækna. Ég reyni að hjóla í vinnu og hef gert af og á í 6 ár og enn þann dag í dag þá hálf kvíður mig fyrir að leggja af stað og það er eiginlega jafn erfitt í dag og það var fyrir 6 árum ef frá er talið að ég mæðist mun minna en nóg samt 🙂

Ég vona innilega að ég fái einhver svör því þetta er komið þannig á sálina á mér að ég næ engan veginn að njóta hreyfingarinnar sem hjólreiðatúrinn gefur.

 

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Ég hef því miður ekki beint svar við þessu og hefði bent þér á að leita fyrst til gigtar-eða æðasérfræðings vegna einkennanna. Það er margt sem getur valdið vöðvaverkjum, t.d. vefjagigt og aðrir bólgusjúkdómar, bólga í sinum og vöðvafestum, æða- eða taugasjúkdómar og skortur á einhverjum efnum í líkamanum ss boðefnum í frumum og ofreynsla..  Einnig er ekki óeðlilegt að finna fyrir þreytu við skyndilegt álag eins og að labba upp tröppur sem síðan hverfur þegar haldið er áfram og viðkomandi kemst í betri þjálfun.  Ég myndi mæla með að láta mæla járn, magnesium,kalium og hormónabúskap með blóðprufu en skortur á þessum efnum getur komið fram m.a. með þreyta í vöðvum, einnig leita til sjúkraþjálfa því vitlaust álag t.d. á hné getur framkallað verki annars staðar í stoðkerfin. Einkenni vefjagigtar er oft hægt að halda í skefjum með breyttu matarræði og þá er hægt að leita til næringafræðings með aðstoð við það.  Annars er að leita til annarra sérfræðilækna og fá annað álit.

Gangi þér vel.