Svimar á meðgöngu?

Spurning:
Mig langar að forvitnast um hvort það sé nokkuð eitthvða alvarlegt að hjá mér. Ég er komin næstum á 21 viku á meðgöngu minni og er bakið að ergja mig svoldið mikið, mér þykir vont að sitja lengi bein og verð að hafa aðra löbbina uppi, aðalega þá vinstri, þegar ég stend upp er ég að drepast í rófubeininu og leiðir sársaukinn niður hægri rasskinnina og er svoldið vont að labba af stað, verkurinn fer samt ekki. Mig svimar mikið og er það stundum svo mikið að mér líður líkt ég sé að detta niður, sé allt í móðu og frekar hvítleitt, sviminn minkar samt verulega er ég borða með jöfnu millibili, helst 1-2 tíma millibili. Ég fæ einstaka sinnum höfuðverk og illt í augun er ég hef verið að lesa örlítið. Ég sef líka voðalítið á nóttunni og kom það fyrir í gær að ég svaf eiginlega ekki neit, man meira eftir því að hafa verið andvaka næstum alla nóttina. Einstaka sinnum verður mér flökurt og tel ég það líklega stafa ef ég hef borðað of mikið. Ég drekk annars vel og tek einstaka sinnum Heilsu Tvennu, fæ reyndar aðeins í magan af lýsinu. Ég fæ stundum rosalega samdrætti í magan og hefur það oftast lagast eftir að ég hef losað um hægðir. Má ég taka inn hægðarlosandi lyf, toilax 5mg, meðan ég er þunguð?

Vona að þú getir hjálpað mér

Svar:
Bakeinkennin sem þú lýsir líkjast taugaklemmu og ættir þú að fá viðtal við lækninn þinn í mæðraverndinni sem metur hvort hann sendir þig til taugalæknis eða sjúkraþjálfa. Hvað varðar svimann sem lagast ef þú borðar þá bendir það til blóðsykursfalls og ekkert annað í stöðunni en að borða reglulega hollan mat og gjarnan ávexti milli mála. Svimi getur einnig bent til blóðleysis svo þú skalt ræða þetta við ljósmóðurina þína. Svefnleysi hrjáir margar konur á meðgöngu og eru til ýmis ráð við því, en best er þó að fara út að ganga á kvöldin og viðhafa reglulegan háttatíma. Bendi ég einnig á aðrar fyrirspurnir sem svarað hefur verið á Doktor.is um sama efni. Ekki er ráðlegt að taka mikið af hægðalyfjum á meðgöngu og er Toilax heldur ekki æskilegasta lyfið. Borðaðu mikið af trefjum og drekktu mikið af vatni – þannig haldast hægðirnar í betra formi. Ef nauðsyn krefur getur þú tekið Sorbitol og notað Microlax til að koma hægðum af stað. Best fer á því að þú ræðir þetta allt saman við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni – hún á sjálfsagt einhver ráð handa þér.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir