Svitna á milli þjóhnappanna

Spurning:

Komdu sæl Sólveig Dóra,

Ég leita til þín í þeirri von að þú getir ráðlagt mér. Ég er þrítugur karlmaður með frekar hvimleiðan kvilla. Ég virðist svitna of mikið milli þjóhnappanna þannig að þar hefur myndast eins og brunasár. Þessu fylgir mikill sviði það mikill að stundum er vont að ganga. Ég hef reynt ýmislegt s.s. logobase krem og barnapúður en alltaf blossar þetta upp.

Í von um góð ráð og með fyrirfram þökkum.
PILTUR

Svar:

Leiðinlegt að heyra af þessum hvimleiða kvilla þínum. Það er aldrei hægt að segja til með fullri viss um hvert vandamálið er nema að skoða það með eigin augum.

En af góðri lýsingu þinni að dæma tel ég að mjög líklegt sé að um sveppasýkingu í húðinni sé að ræða sem blossa upp aftur og aftur.

Á húð okkar eru við eðlilegar kringumstæður sveppir sem valda okkur venjulega engum vandræðum. Kjör vaxtarskilyrði þessara sveppa eru heitt og rakt umhverfi og þar sem þessi skilyrði myndast getur því orðið vöxtur sveppa aukist. Húðin verður þá rauð, glansandi og aum og oft fylgir kláði.

Til að ná niður sýkingunni ráðlegg ég þér að kaupa í apóteki krem með sveppadrepandi verkun td. Pevaryl. Haltu meðferðinni áfram í 2 vikur eftir að einkenni hverfa. Í slæmum tilfellum þarf stundum að nota lyf með flóknari verkun og eru þau lyfseðilsskyld, en rétt er að reyna þessa leið fyrst.

Það er ýmislegt sem er hægt að gera til forvarna.

Miklvægt er að vera í nærfötum úr bómull, en ekki úr gerviefnum. Forðast skal þröngan fatnað. Þvo svæðið vandlega kvölds og morgna og þurrka húðina vel Gott er að blása á svæðið með hárblásara eftir að húðin hefur verði þurrkuð með handklæði til að fá það alveg þurrt. Í apótekum eru til púður sem innihalda sveppadrepandi efni s.s. pevaryl og hentar vel til að fyrirbyggja sveppasýkingar í húð. Ég ráðlegg þér að reyna þetta og sjá hvort þú nærð ekki að halda húðinni heilli.
Ég vona að þetta hjálpi. Gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Dóra Magnúsdóttir, læknir