Svitna alveg svakalega?

Spurning:
Ég er 21 árs gömul og á við smá vandamál að stríða. Málið er að ég svitna alveg svakalega í handarkrikunum, jafnvel við enga áreynslu. Þetta er búið að vera í meira en tvö ár og er orðið vægast sagt óþolandi. Ég er búin að eyðileggja marga boli og peysur sem í er föst svitalykt. Ég hef í langan tíma ekki getað keypt boli í þeim litum sem sjást svitablettir á, því það er frekar neyðarlegt þegar maður er skemmta sér. Ég heyrði af stelpu sem átti við sama vandamál að stríða og hún fór til háls- nef- og eyrnalæknis og lét taka svitakirtlana í handarkrikunum.

Mínar spurningar eru þessar:

1. er þetta mögulegt?
2. er þetta hættulegt?

Svar:
Þessi aðgerð sem vinkona þín fór í er möguleg og er framkvæmd til að hjálpa fólki sem á við sama vandamál að glíma og þú. Hverri aðgerð/meðferð fylgir ákveðin áhætta. Við erum einstaklingsundin og líkamssvörunin er misjöfn. Sumir fá aukaverkanir s.s. ljót, upphleypt ör á meðan aðrir gróa vel þar sem lítið sést hvað eða hvort eitthvað var gert. Hafir þú fengið ör skaltu líta á það og skoða hvernig það hefur gróið. Gefðu þér tíma til að ræða við lækninn þinn – áður en þú ákveður að gangast undir aðgerð. Hann gefur þér upp allar upplýsingar um aðgerðina sjálfa, undirbúning fyrir hana og eftirmeðferð Oft gleymum við því sem við erum að hugsa um að spyrja lækninn þegar við komum til hans í skoðun. Gott er þá að skrá á blað hugsanir og spurningar sem maður vill fá svörun við og hafa með sér í viðtalið. Það ætti að tryggja að þú fáir allar nauðsynlegar upplýsingar sem mögulegar eru.

Bestu kveðjur,
Hrönn Guðmundsdóttir.