Syfja

Góðan daginn.

Ég er að leita að ástæðu fyrir því hvers vegna svefn sækir svo mikið að mér.

Ég fer í vinnu á morgnana kl 8:00 kem í hádegismat, og eftir mat legg ég mig í 15-20 mín og sofna alltaf.

Kem heim úr vinnu kl 17:00 og berst við að halda mér vakandi þangað til ég sest við sjónvarpsfréttirnar, sofna í 15-30 mín.

Geng til náða 22:30 – 23:00  og sef til morguns með svona 3-4 klósttferðum á nóttu.

Þarf ég ekki að láta skoða eitthvað ?

Með kveðju,

 

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Ég tel ráðlegt fyrir þig að fara til heimilislæknisins þíns og ganga úr skugga um að ekkert líkamlegt sé að valda þessarri þreytu eins og til dæmis vítamínskortur eða brenglun á efnabúskap líkamans.  

Eins þarf að skoða þetta með klósettferðirnar. Þær eru heldur margar og trufla svefninn hjá þér og geta verið vísbendingar um vandamál sem hægt er að leysa og þú fengir betri hvíld.

Ef ekkert finnst athugavert þá er það þannig,  eins undarlegt og það hljómar, að aukin hreyfing gefur aukna orku. Það er hins vegar gríðarlega erfitt að hafa sig af stað og það tekur tíma og viljastyrk.  Ef það er mögulegt væri eflaust gott fyrir þig að fara í göngutúr eftir vinnu í stað þess að berjast við svefninn heima.

En eins og kemur fram í upphafi- byrjaðu á að leita læknis.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða