sýra

ég veit ekki hvort þetta sé einhvað sem ég borðaði eða drakk, hvort þetta sé einhver samsetning fæðu. en ég held ég sé með einhverskonar sýru eða bakteríu eða vírus í hálsinum hjá skjaldkirtlinum. ég er ekki með brjóstsviða eða ógleði eða neitt svoleiðis mér líður vel. en ég fæ stundum svona tilfinningu eins og ég þurfi að kasta upp. ég fæ mis sterka tilfinningu til að kasta upp, sem kemur og fer. og ég er alltaf að ropa. hvað getur þetta verið ? ég fékk svipaða tilfinningu áður fyrir u.þ.b 4 vikum en þá var það verra, þá kúgaðist ég í sífellu en það kom engin æla eða neitt svoleiðis, og þá var ég nýbúinn að borða. það lagaðist samt á innan við klukkutíma . ég finn að þetta er að lagast núna líka. en þetta veldur mér hugarangri .. hvernig get ég skyndilega fengið þá tilfinningu að ég þurfi að kasta upp, án þess að vera með svima eða ógleði eða slíkt ?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Mér finnst líklegast að þessi óþægindi sem þú lýsir stafi af bakflæði þó svo að þú finnir ekki fyrir brjóstsviðaverk en það er mjög einstaklingsbundið hvernig einkennin koma fram. Hér getur þú lesið þér til um helstu einkenni og bjargráð við bækflæði. Annað sem kemur til greina er að þú sért með ójafnvægi í þarmaflórunni þar sem candida sveppurinn hefur fjölgað sér um of. Ef það er orsökin þá ættir þú að vera með þykka hvíta skán á tungunni. Candida sveppurinn þrífst best á ákveðnum fæðutegundum og þá helst fæðutegundum sem innihalda sykur, hveiti og ger. Ef þú ert mikið í þessum fæðutegundum getur candida sveppurinn fjölgað sér um of einfaldlega vegna þess að þú býður honum upp á kjöraðstæður.

Ég ráðlegg þér að byrja á því að prófa að fylgja þeim ráðum sem gefin eru til að draga úr einkennum bakflæðis og jafnvel prufa lyfjameðferð til að slá á einkennin. Ef þér finnst líklegra að ástæðan sé candida sýking skaltu reyna að forðast þær fæðutegundir sem næra sveppinn og jafnvel fá leiðbeiningar í heilsubúð um hvort eitthvað sé til sem þú getur tekið inn til að vinna á þessum einkennum. Ef ekkert af þessu dugar til skaltu panta þér tíma hjá heimilislækni og fá hann til að skoða með þér hvað þetta getur verið

Gangi þér vel