Testosteronskortur hjá karlmanni

Spurning:

Ég fann ekkert um karlhormónið „testesterón“. Mig langar að vita hvað getur valdið því að karlmenn vanti þetta hormón, þá er ég að tala um menn uppúr fertugu.

Getur þetta verið tengt einhverjum sjúkdómi t.d. MS?
Skaffaðir eru plástrar með þessu hormóni, einn á dag út ævina, er það nægilegt?
Getur þessi skortur ekki valdið einhverjum kvillum?
Ég fann MS sjúkdóminn á netinu og voru góðar upplýsingar um hann þar en mig langar að fá svör við þessum spurningum ef hægt er.

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Raunverulegur skortur á testosteroni er mjög sjaldgæfur en þeir karlmenn sem þjást af skorti á testosteroni hafa ýmis einkenni þar sem hormónið hefur víðtæk áhrif í líkamanum. Orsakir geta verið ýmsar, t.d. meðfæddir gallar en þá eru einkenni yfirleitt komin fram fyrr og svo áunnir þættir eins og öldrun, langvinnir sjúkdómar s.s. MS-sjúkdómurinn, ýmis lyf, höfuðáverkar, sýkingar í miðtaugakerfi eða í eistum, krabbamein og áfengismisnotkun svo eitthvað sé nefnt. Helstu einkenni testosteronskorts eru: Testosteron hefur áhrif á kynkvöt og kyngetu þannig að ef skortur er á því þá minnka báðir þessir þættir. Testosteron hefur áhrif á húð þannig að hárvöxtur minnkar og skeggvöxtur getur svo til hætt. Testosteronskortur veldur því að vöðvar rýrna og verða máttlausir og sjúklingar finna því fyrir miklum slappleika. Ef grunur leikur á að um skort á hormóninu geti verið að ræða er hægt að skera úr um það með einfaldri blóðprufu þar sem magn hormónsins í blóði er mælt. Testosteron er á tvennskonar formi í líkamanum, annars vegar á fríu formi og hins vegar bundið próteini. Sjúkdómar geta haft áhrif á niðurstöður testosteronmælinga, t.d. getur vanstarfsemi skjaldkirtils og lifrarsjúkdómar haft þau áhrif að gildi í blóði mælist eðlilegt þrátt fyrir að öll einkenni séu til staðar og til að koma í veg fyrir að missa af sjúkdómsgreiningu er mikilvægt að mæla bæði þessi gildi. Ef karlmaður er greindur með skort á testosteroni þarf að taka fleiri próf til að greina hvaðan skorturinn er kominn, hvort hann er frá eistum eða hvort truflun er í heiladinglinum. Ef karlmaður er greindur með skort á testosteroni þarf að vega og meta ávinning og ókosti testosteronmeðferðar. Ávinningurinn er að kynhvöt og kynlöngun eykst, vöðvarýrnun og vöðvaslappleiki gengur til baka og einnig hefur testosteron jákvæð áhrif á bein í körlum líkt og estrogen í konum. Neikvæðu hliðar testosterons eru helst til þær að það hækkar blóðfitur og getur einnig hvatt vöxt á blöðruhálskirtilskrabbameini og því mikilvægt að skoða blöðruhálskirtilinn vandlega áður en meðferð er hafin og fylgjast reglulega með á meðan á meðferð stendur. Það er hægt að gera með því mæla svokallað PSA (prostata specific antigen) sem er mælt í blóði bæði fyrir meðferð svo viðmiðunargildi fáist og reglulega á meðan á meðferð stendur. Til að meðhöndla testosteronskort er ýmist notað stungulyf sem inniheldur testosteron (Testoviron Depot) og er það gefið í vöðva á 3–6 vikna fresti. Með þessu næst ekki eins jöfn losun á hormóninu eins og þegar notaðir eru plástrar sem innihalda testosteroni (Atmos) og eru þeir settir á hreina, þurra húð að kvöldi. Helstu aukaverkanir við meðferðina er fjölgun á rauðum blóðkornum og vökvasöfnun og bjúgmyndun.

Ég vona að þú hafir fengið svar við spurningu þinni,

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir