Þvagprufan ónýt?

Ég fór í blóðprufu þar sem ég átti einnig að skila inn þvagprufu. Ég var að verða allt of sein í tímann þegar ég áttaði mig á því að ég gleymdi að pissa í glasið. Ég gerði það því í miklum flýti og það fylgdi smá brúnleit útferð með þvagprufunni. Síðan hringdi læknirinn í mig og sagði mér að ég væri með þvagfærasýkingu. Gæti útferðin í glasinu haft þau áhrif að ég greindist með þvagfærasýkingu?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það skiptir máli að vanda til verka þegar þvagprufa er tekin, til að hún skili réttum niðurstöðum. Bakteríur t.d frá húðinni geta mengað sýnið og gefið falskt jákvæðar niðurstöður. Ef þú hefur ekki haft skýr einkenni um þvagfærasýkingu sem nú hafa lagast við sýklalyfjameðferð er ekki víst að um raunverulega sýkingu hafi verið að ræða. Stundum er hægt að átta sig á því hvort líklegt sé að bakteríurnar stafi af mengun í sýninu eða þvagfærasýkingu eftir því hvaða bakteríur hafa ræktast. Læknirinn þinn getur svarað til um það.

Gangi þér vel