Tíðaverkir og doði í fótum á meðgöngu

Spurning:

Sæl Dagný!

Það er ákaflega gaman að sjá hvað við konurnar hugsum svipað og höfum áhyggjur af sömu hlutunum.

Ég á von á mínu fyrsta barni og er komin 11 vikur á leið, ég fór í sónar á níundu viku og allt leit vel út. Það sem ég er að hafa áhyggjur af núna er að ég hef haft stanlausa tíðaverki í þrjá daga en ég tek það fram að þeir eru vægir. Verkirnir lýsa sér sem smá doði niður í fætur og samdráttarverkir í leginu, reyndar hefur maginn tekið smá vaxtarkipp síðustu daga. Ég hef áður fengið smá tíðaverki í kringum þann tíma sem ég hefði átt að vera á blæðingum en ekki svona verki sem eru eiginlega stanlausir en vægir. Er þetta eitthvað til þess að hafa áhyggjur af?

Takk fyrir frábæra þjónustu við áhyggjufullar verðandi mæður!!!

Svar:

Sæl

Svona tíðaverkir eru algengir og haldast oft í hendur við það að legið er að vaxa – einskonar vaxtarverkir. Yfirleitt er þetta ekkert til að hafa áhyggjur af nema ef útferð eykst verulega eða fer að blæða. Vertu bara róleg – nú fer að líða að fyrstu mæðraskoðun og þá getur þú minnst á þetta við ljósmóðurina þína.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir