Upplýsingar um Behcet sjúkdóminn?

Spurning:
Góðan daginn, ég er að reyna að afla mér upplýsinga um sjúkdóm sem heitir Behcet og er einhverskonar gigtarsjúkdómur.Móðir mín er með þennan sjúkdóm og langar mig að fá einhverjar upplýsingar um hvernig hann leggst á fólk, eru einhver tengsl á milli þessarar sjúkdóms og geðveilu?Með fyrirfram þökk,Kveðja

Svar:

Behcet sjúkdómurinn er flokkaður undir gigtarsjúkdóma og leggst á æðakerfi líkamans, bæði stórar sem smáar slagæðar og bláæðar.

Behcet sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur og eru innan við 10 sjúklingar á Íslandi. Horfur hjá flestum eru góðar en einstaka tilfelli geta verið alvarleg.Einkenni sjúkdómsins:

Einkenni þessa sjúkdóms geta komið fram á mörgum stöðum í líkamanum. Algengustu einkennin eru munnsár, sár á kynfærum, bólga í augum og einkenni frá húð. Óalgengari einkenni eru frá liðum, miðtaugakerfi, meltingarvegi.

Augu: Bólga getur verið í fremri hluta augans eða í augnbotninum. Einnig getur hún verið á báðum stöðunum. Bólgan framan við augað einkennist af verkjum, óskýrri sjón, viðkvæmni fyrir ljósi, einstaklingur tárast og roða í auganu. Bólga í augnbotninum er mun hættulegri. Hætta er á sjónskerðingu og jafnvel blindu.

Munnur: Sársaukafull og stór sár í munni, á vörum, tungu og  innan á kinnum. Sárin geta verið stök ein og sér eða í þyrpingu. Flestir fá einhver munnsár.

Kynfæri: Karlar: Sár á (lesion) á pung svipað og í munni nema dýpra. Konur: Sársaukafull sár á kynfærunum.

Húð: Graftrarbólur geta komið fram sem líkjast unglingabólum. Bólurnar  birtast oft á ökklum og fótleggjum en geta líka komið fram á andliti, hálsi og handleggjum. Ólíkt öðrum bólum/útbrotum geta þær endað með sárum.

Liðir: Verkir í liðum án bólgu.

Meltingarvegur: Sáramyndanir geta verið frá munni og niður í endaþarm. Algengast  er að sár myndist í neðrihluta meltingarvegs. Oft erfitt að greina á milli hvort um er að ræða Bechet eða aðra bólgusjúkdóma í meltingavegi t.d. Chron´s.

Heili: Einkenni frá miðtaugakerfinu s.s. höfuðverkur.

Orsök: Behcet`s sjúkdómurinn er einn af fáum æðabólgusjúkdómum þar sem erfðaþáttur er þekktur. Þeir sem hafa erfðaþáttinn HLA-B51 eru í áhættuhópi fyrir sjúkdóminum. Þó svo að erfðaþátturinn sé til staðar fær lítill hluti af þeim einstaklingum sjúkdóminn. Aðrir orsakavaldar geta til dæmis verið sýkingar og/eða aðrir umhverfisþættir

Greining: Engin sérstök rannsókn greinir sjúkdóminn. Greiningin er byggð á einkennum og ef hægt er, er tekið sýni úr líffæri sem einkennin koma frá.

Til að fá Behcet`s greiningu þurfa eftirfarandi einkenni að vera til staðar.

   Endurtekin munnsár. (minnst þrisvar á ári)   Tvö af eftirtöldum atriðum:

     1. Endurtekin sár á kynfærum

     2. Augnbólga eða æðabólga í augum.

     3. Húðútbrot/bólur.

     4. Jákvætt húðpróf

Meðferð: Prednisólon (sterar) er algengasta lyfjameðferðin en í  mismunandi skömmtum og í mislangan tíma. Í alvarlegum tilfellum þarf stundum að nota háa skammta af Prednisólon ásamt ónæmisbælandi lyfjum svo sem cyclophosphamide.

Kveðja, Starfsfólk Gigtarlínunar

Gigtarfélagi Íslands